-->

143 tonn af lúðu veidd í fyrra

Á síðasta ári voru veidd og landað nærri 143 tonnum af lúðu þrátt fyrir að allar veiðar á lúðu séu óheimilar. Þetta kemur fram á Alþingi í skriflegu svari Sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn frá Sigurði Páli Jónssyni, alþm. Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi.

Allar beinar veiðar á lúðu voru bannaðar árið 2011. Komi lúða um borð í veiðiskip sem meðafli skal umsvifalaust sleppa lífvænlegri lúðu. Í reglugerðinni segir að við línuveiðar skuli sleppa allri lúðu með því að skera á taum línunnar. „Við handfæra- og sjóstangaveiðar skal losa lúðuna varfærnislega af krókum eða skera á lykkju slóðans áður en lúða kemur um borð.“

Lúðu sem ekki er sleppt skal selja á viðurkenndum uppboðsmarkaði fyrir sjávarafurðir og greiða andvirðið til ríkisins í verkefnasjóð sjávarútvegsins. Síðustu 3 ár hafa 37 – 40 milljónir króna runnið í sjóðinn árlega samkvæmt því fram fram kemur í svari ráðherrans.

Einnig var spurt um hversu mörgum lúðum hafi verið sleppt samkvæmt skráningu í afladagbókum veiðiskipa frá 2015 og kemur fram í svarinu að það hafa verið frá 2 upp í 2.316 fiskar á ári. Á síðasta ári var 1.886 lúðum sleppt.

Í reglugerðinni um bann við lúðuveiðum segir að leyfi til lúðuveiða skulu gefin út, fyrir hvert fiskveiðiár, þegar talið er, samkvæmt ráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar, að lúðustofninn þoli veiðar.

Í skýrslu sinni um lúðuna frá því í sumar segir Hafrannsóknarstofnun að mælt sé með veiðibanninu áfram.

Hins vegar segir einnig í skýrslunni að stofnunin geti ekki metið stöðu stofnsins og veiðiálag m.t.t. aðgerðarmarka hámarksafraksturs og varúðarnálgunar þar sem viðmiðunarmörk hafa ekki verið skilgreind. Þá eru litlar upplýsingar til um kynþroska hluta stofnsins.

Horfurnar fyrir lúðustofninn eru þessar:

„Lúða sem veiðist í SMB er að stærstum hluta 3–5 ára ókynþroska fiskur. Þessir aldurshópar hafa verið í mikilli
lægð í tvo áratugi og bendir það til að viðkomubrestur hafi orðið í stofninum. Þetta ástand er orðið svo langvinnt
að fyrirsjáanlegt er að stofninn muni vera í lægð í fyrirsjáanlegri framtíð.“
Frétt af bb.is

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Vilja láta rannsaka hvort útgerðin svíki...

Formenn þriggja stéttafélaga sjómanna vilja að kannað verði hvort verðmæti sjávarafurða hækki óeðlilega meðan verið er að f...

thumbnail
hover

Sjávarútvegsskólinn kominn með nema eftir árs...

Gró Sjávarútvegsskóli sem starfar undir hatti UNESCO hefur fengið nema að nýju eftir árs hlé vegna Covid19. Þetta er stærsti hóp...

thumbnail
hover

Mikið um þörungablóma fyrir austan

Þörungablómi fyrir austan virðist óvenju mikill miðað við árstíma. Hafrannsóknastofnun hafa borist fregnir af blóðrauðum sjó ...