146 langreyðar veiddust í ár

Deila:

Veiðum á langreyði er lokið á þessari vertíð. Alls veiddust 146 hvalir. Veiðarnar gengu nokkuð vel, þrátt fyrir lélegt tíðarfar, þokur og lélegt skyggni að sögn Gunnlaugs F. Gunnlaugssonar, starfsmanns Hvals hf.

Stutt var var að sækja á miðin, um 120 til 150 mílur vestur úr Hvalfirði. Um 150 manns störfuðu við veiðar og vinnslu á þessu ári. Gunnlaugur segir að ekki sé vandamál að selja afurðirnar. Bátarnir Hvalur 8 og Hvalur 9 stunduðu veiðarnar.

Síðustu tvö ár voru engar veiðar á langreyði stundaðar. Árið 2015 veiddust 155 dýr, 137 árið áður og 134 dýr árið 2103. Síðan kom tveggja ára hlé á veiðunum, en árið 2010 veiddust 148 langreyðar og 125 árið 2009.

Ekki liggur fyrir hvort veiðar verða stundaðar á næsta ári. Hafrannsóknastofnun ráðleggur að árlegar veiðar á langreyði á tímabilinu 2018-2025 verði ekki meiri en 161 dýr á veiðisvæðinu Austur-Grænland/Vestur-Ísland og að hámarki 48 langreyðar á svæðinu Austur-Ísland/Færeyjar.

„Langreyði hefur fjölgað jafnt og þétt við Ísland frá upphafi hvalatalninga árið 1987 og var fjöldinn í síðustu talningu (2015) sá mesti síðan talningar hófust. Besta leiðrétta mat fyrir allt talningasvæði Íslands og Færeyja árið 2015 var 40.788 langreyðar, þar af 33.497 á Austur Grænlands-Íslands stofnsvæðinu,“ segir í ráðleggingum Hafró um hæfilegan heildarafla á ári.

Deila: