19.409 löxum sleppt eftir veiði í fyrra

Deila:

Sumarið 2018 var skráð stangveiði á laxi í ám á Íslandi alls 45.291 lax. Af þeim var 19.409 (42,9%) sleppt aftur og var heildarfjöldi landaðra laxa því 25.882 (57,1%) laxar. Af veiddum löxum voru 36.044 laxar með eins árs sjávardvöl (smálaxar) (79.6%) og 9.247 (20,4%) laxar með tveggja ára sjávardvöl eða lengri (stórlaxar). Alls var þyngd landaðra laxa (afla) í stangveiði 68.797 kg. Afli í stangveiðinni skiptist þannig að 22.907 laxar voru smálaxar, alls 53.649 kg og 2.975 stórlaxar sem voru 15.148 kg. Af þeim löxum sem sleppt var aftur voru 13.137 (67,8%) smálaxar og 6.272 (32,3%) stórlaxar, samkvæmt frétt á heimasíðu Hafró.

Fimm veiðihæstu laxveiðiárnar voru, Ytri – Rangá, Hólsá Vesturbakki með 4.039 laxa, Eystri – Rangá með 3.960 laxa, Miðfjarðará 2.725 laxa, Þverá og Kjarrá 2.441 og Norðurá með 1.692 laxa.

Heildarafli landaðra laxa í stangveiði og netaveiði samanlagt var 49.901 laxar sem vógu alls 81.712 kg. Af þeim voru 26.620 smálaxar og 3.856 stórlaxar. Þyngd smálaxa var 54.870 kg og þyngd stórlaxa 18.738 kg.

Urriðaveiðin hefur verið á uppleið síðustu fjögur árin. Af urriðaveiðisvæðum landsins þar sem stangveiði var stunduð, veiddust flestir urriðar í Veiðivötnum, alls 10.330 þ.e. 1.006 fleiri veiddir urriðar en á árinu áður og í Laxá í Þingeyjarsýslu ofan Brúa, en þar veiddust 3.763 urriðar þ.e. 461 fleiri í ár en árið áður. Í Fremri Laxá á Ásum var urriðaveiðin 2.536 fiskar sem var nánast sama veiði og árið áður.

Bleikjuveiðin var svipuð árið 2018 og árið áður. Alls voru skráðar á landinu 27.909 bleikjur og af þeim var 4.413 (15,8%) sleppt aftur. Það veiddust 143 fleiri bleikjur 2018 en árið áður. Fjöldi í afla var því 23.496 bleikjur og heildarþyngd aflans var 17.318 kg. Eins og í urriðaveiðinni þá var mest veiði í landshlutum á bleikju á Suðurlandi en þar veiddust 14.749 bleikjur og 758 var sleppt. Bleikjuveiði á Norðurlandi vestra var 4.411 bleikjur og litlu færri voru á Norðurlandi eystra 4.373 bleikjur.

Sumarið 2018 bar ekki mikið á hnúðlöxum í ám hér á landi líkt og árið 2017. Meira er af hnúðlaxi þegar ártalið stendur á oddatölu en jafnari tölu. Mikilvægt er að veiðimenn skrái veiði á hnúðlöxum, þar sem búast má við auknum fjölda hnúðlaxa sumarið 2019. Einnig er mikilvægt að skrá ef veiðist eldislax og koma sýnum af fiskum til erfðagreiningar hjá Hafrannsóknastofnun.

Samantekt veiðinnar byggist á veiði sem skráð er í veiðibækur. Veiðifélög/veiðiréttarhafar bera ábyrgð á skráningu veiði skv. lögum. Hafrannsóknastofnun annast samantekt veiðitalna og skráningu í rafrænan gagnagrunn í umboði Fiskistofu.

 

Deila: