TF-SIF farin til Miðjarðarhafsins
TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar, hélt um helgina til Grikklands en næstu vikurnar sinnir vélin og áhöfn hennar landamæraeftirliti á austanverðu Miðjarðarhafi fyrir Landamæra- og strandgæslustofnun Evrópu, Frontex. Til að byrja með verður flugvélin í Miðjarðarhafsverkefnum til 20. febrúar en til skoðunar er að þau verði framlengd þar til í lok mars. Þá kemur til greina að vélin sinni aftur verkefnum á svæðinu fyrir Frontex með haustinu.
Landhelgisgæslan hefur áður sinnt margvíslegum verkefnum fyrir Frontex en undanfarna mánuði hefur óvissa ríkt um framhaldið. Í byrjun ársins óskaði Frontex eftir flugvél frá aðildarríkjunum í verkefni með mjög stuttum fyrirvara. Í ljósi fjárhagsstöðu Landhelgisgæslunnar var ákveðið að bregðast við beiðninni og eftir stuttar samningaviðræður var TF-SIF send út.