Rannís styrkir Marlýsi

Deila:

Tækniþróunarsjóður Rannís hefur nú styrkt samstarfsverkefni Margildis, Matís, Háskólans á Akureyri, Síldarvinnslunnar, Mjólkursamsölunnar og KPMG sem ber heitið Marlýsi.

Í þessu verkefni er stefnt að því að besta nýja vinnsluaðferð á lýsi til manneldis úr uppsjávartegundunum loðnu, síld og makríl. Margildi er sprotafyrirtæki sem hefur þróað nýja og einstaka vinnsluaðferð, svokallaða hraðkaldhreinsun, sem gerir kleift að fullhreinsa lýsi úr áðurnefndum uppsjávartegundum. Fram til þessa hefur ekki verið unnt að kaldhreinsa fyrrnefnt lýsi til manneldis á skilvirkan og hagkvæman hátt vegna mikils magns mettaðra og langra einómettaðra fitusýra. Margildi hefur þegar sótt um einkaleyfi fyrir hraðkaldhreinsitæknina.

Þróaðar verða vinnsluaðferðir fyrir lýsið sem gerir það hæft til notkunar sem fæðubótarefni í hylkjum eða flöskum, en einnig sem íblöndunarefni í matvæli. En lýsið frá Margildi er að koma afar vel út sem íblöndunarefni í matvæli vegna náttúrlegs stöðuleika lýsisins.

Hrálýsi úr loðnu, síld og makríl, sem er unnið í fiskmjöls- og lýsisverksmiðjum er í dag eingöngu selt sem íblöndunarefni í dýrafóður samhliða fiskmjöli. Góð þekking er til staðar á framleiðslu hrálýsis á Íslandi í fiskmjöls- og lýsisverksmiðjum og eru þær vel tækjum búnar. Fimm af ellefu verksmiðjum hafa fengið manneldisvottun frá Matvælastofnun (MAST) á sína starfsemi að hluta eða öllu leyti og fleiri stefna í sömu átt. Manneldisvottun er ein af frumforsendum þess að hægt sé að framleiða lýsi úr uppsjávarfiski til manneldis. Bæði útvegsfyrirtækin í þessu verkefni, þ.e. Síldarvinnslan og HB Grandi, búa yfir manneldisvottuðum verksmiðjum og verður unnið áfram með afurðir frá þeim.

Í janúar á þessu ári samþykkti bæjarráð Fjarðabyggðar undirritun viljayfirlýsingar við Margildi þar sem lýst er velvilja og stuðningi í garð mögulegrar verksmiðju fyrirtækisins í sveitarfélaginu. Við erum þakklátir fyrir stuðninginn og áhugann, sem við höfum svo sem fundið víða en hann hefur verið mjög mikill úr Fjarðabyggð eins og þessi viljayfirlýsing ber með sér,“ segir Snorri Hreggviðsson, framkvæmdastjóri Margildis.

Gangi þetta verkefni eftir munu skapast forsendur til að reisa og reka hérlendis sérhæfða lýsisverksmiðju sem byggir á niðurstöðum verkefnisins. Með tilkomu verksmiðju Marlýsis verður arðvænlegri stoðum skotið undir fiskmjöls- og lýsisiðnaðinn og hann getur þróast að hluta úr hrávöruframleiðslu til fóðurgerðar yfir í framleiðslu fullunninnar vöru til manneldis.

 

Deila: