Verulegt tjón af verkfallinu

Deila:

Forstjóri Samherja segir tjónið af völdum sjómannaverkfalls orðið verulegt og því verði að ljúka. Samherji hafi orðið af þriggja til fjögurra milljarða útflutningstekjum í verkfallinu. Sjómannaverkfallið hefur staðið í nærri 8 vikur og margir farnir að finna fyrir tjóni vegna þess. 600 starfsmenn Samherja sitja heima, 200 sjómenn í verkfalli og nærri 400 starfsmenn í landi, meðal annars í fiskvinnslu. Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, er orðinn óþolinmóður að lausn fáist í deiluna. „Ábyrgðin er okkar og hún er mjög mikil, við einfaldlega verðum að fara að klára þetta. Markaðslega er tjónið orðið mjög verulegt. Samherji er búinn að eiga fisk í hillunum hjá Marks og Spencer í 15 ár og þær hillur – við getum ekki afhent í þær hillur lengur. Það er bara aðrir sem gera það og það verður ekki auðvelt að komast inn aftur. Við höfum ekki staðið okkur í því að afhenda fisk sem við áttum að gera í desember og janúar,“ segir Þorsteinn Már í samtali við ruv.is

Milljarða tap útgerðarinnar

Það er ekki einfalt að reikna tapið vegna verkfallsins en hluti af því eru tapaðar útflutningstekjur. „Við erum að flytja út sjávarafurðir á þessum tíma fyrir svona 350-400 milljónir. Þá segir það sig sjálft að eftir 8 vikur er útflutningsverðmætið á bilinu 3-4 milljarðar.“

Óska ekki eftir skattaafslætti eða greiðslum

Því hefur verið haldið fram að útgerðin vilji að ríkið taki þátt í kostnaði við sjómannasamninga. Því mótmælir Þorsteinn Már. Sjómenn fái um þúsund krónur í fæðispening þegar búið er að greiða af honum skatt en aðrir starfsmenn fái um 11 þúsund krónur á dag fari þeir út fyrir sitt starfsvæði. „Við óskum bara eftir því að sjómaðurinn fái að… að við fáum að borga kostnaðinn við hans fæði án þess að það sé skattlagt sérstaklega eins og gildir um alla aðra, hvort sem eru flugmenn eða aðrir. Það er eingöngu það sem við erum að fara fram á, við erum ekki að fara fram á neinar greiðslur frá ríkinu eða skattaafslátt. Þetta snýst um allt annað.“

 

Deila: