Langan horfin af miðunum en meira af þorski

Deila:

„Við höfum verið að róa alveg frá áramótum og við vorum í 17 róðrinum held ég í dag. Það hefur bara gengið fínt. Við vorum með 7 tonn í dag og verið svona frá fjórum upp í átta tonn í róðri. Það er búin að vera meiri veiði heldur en mörg undanfarin ár í janúar. Meiri þorskur. Það varla út af verkfallinu, það hefur bara verið meiri fiskur á slóðinni er verið hefur,“ sagði Júlíus Sigurðsson, skipstjóri á Daðey GK, þegar Ægir ræddi við hann nýlega. Daðey er í litlakerfinu og verkfall nær því ekki til hennar.

„Þetta byrjaði vel og svo sló þessu aðeins niður í kringum smástreymið um daginn. Nú er veiðin að aukast á ný með stærri straum. Það er miklu meiri kraftur í þessu en í fyrra og hitteðfyrra. Janúar var hreinlega mjög dapur í fyrra. Ég hékk bara í Röstinni þá og var að kroppa ágætlega þar, enn þessi hefðbundna línuslóð út af Sandgerði var dauf í fyrra og ekki verið svona lífleg í mörg ár. Þetta er stór og góður fiskur og við höldum okkur þar norðvestur úr Garðskaganum. 10-20 mílur út og nær stundum.

Leiðinda veður

Það er búið að vera leiðinda veður núna suðvestan þriggja til fjögurra metra alda og alls engin blíða Það eru eiginlega allir túrar í einhverri brælu. Það hefur verið mikill sjór og alltaf þessi suðvestan undiralda alveg sama hver vindáttin er. Stundum er bara þægilegt að hafa hana ef það er norðaustan rok. Þá nær norðaustanáttin ekkert að bíta mann.  Þetta er búinn að vera óvenjumikill sjó og auðvitað venst maður því. Maður er bara ánægður ef maður kemst út,“ segir Júlíus.

Júlíus og félagar eru alltaf á línu enda með beitningarvél um borð. Þeir eru að leggja 13.000 króka í róðri sem samsvarar um 28 500 króka bölum. Lengdin á línunni er um 9 mílur. „Það eru eiginlega allir komnir með lengri línur en við, en mér finnst þetta alveg passlegt fyrir okkur, ágætis dagsverk. Þetta eru svona 12 til 14 tímar í róðri. Línulengdin hjá mörgum bátum er komin út fyrir öll mörk og árangurinn er ekkert endilega mikið meiri með lengri línu. Sérstaklega ekki hérna fyrir sunnan. Lengri lína skilar sér hins vegar betur fyrir norðan og austan þar sem er betri botn. Hérna kemst maður bara ekki yfir mikið meira. Ef það er eitthvað bras er dagurinn fljótur að fara.

DaðeyTökum frívaktina heima

Ef ekkert slitnar og allt gengur mjög vel erum við svona 7 tíma að draga línuna. Við erum svo einn og hálfan tíma að leggja og sitthvor klukkutíminn í stím og kannski tveir tímar á bauju áður en við byrjum að draga. Maður bíður yfirleitt eftir falla- eða ljósaskiptum. Mér finnst hann taka heldur betur í ljósaskiptunum en fallaskiptunum.  Gangurinn er svona á þessu. Maður er að fara hérna úr Grindavík klukkan fjögur um nóttina og kominn aftur um kvöldmatinn. Það er svona eðlilegur dagur og manni finnst hann ekkert langur. Þegar kemur fram á vertíðina vill þetta dragast stundum langt fram á kvöld og þá eru menn oft ekki að fara heim milli róðra. Manni finnst nú gott að fá svona átta tíma heima. Geta étið, hoppað í pottinn og slakað aðeins og sofið í fimm til sex tíma. Það er mjög gott. Þannig vill maður hafa það. Ná aðeins að hitta fjölskylduna og leggja sig. Við tökum frívaktina heima.“

Daðeyin hefur eingöngu landað í Sandgerði í janúar. „Við erum alltaf á leiðinni í Grindavík. Þeir eru alltaf að spá norðan átt í framtíðarspánni en þegar til þess kemur verður aldrei neitt úr henni, hún breytist oftast í austan átt. Svo er bara meiri veiði út frá Sandgerði en Grindavík, stærri fiskur.“

Svipað framboð á mörkuðum

Öllum fiski er landað á markað og svo hefur verið í 10 ár. Verðið er örlítið lægra en á sama tíma í fyrra, þrátt fyrir verkfall. „Það bjargar því fyrir okkur að verðið er alveg ásættanlegt. Það er ekkert eitthvað himin hátt. Þetta er þannig að stóru fyrirtækin sem hafa haldið verðinu uppi þegar það er mikið framboð eins og Samherji, þeir eru bara ekkert að vinna núna svo það eru bara færri aðilar að bítast um þetta. Verðið hækkar eitthvað, þegar fáir eru á sjó, en um leið og þessi floti er allur á sjó, lækkar verðið. Það var frekar lélegt í dag til dæmis, því nú voru bátar á sjó um allt landið.

Mér finnst framboðið á mörkuðunum bara vera svipað og þegar ekki er verkfall. Það eru mest trillur sem landa á þennan markað. Stóru skipin eru ekkert að landa á markaði. Þetta er bara svipað og var í haust þegar allur smábátaflotinn var á sjó, en yfir veturinn eru nú ekki margir svoleiðis dagar yfirleitt er bræla einhvers staðar. Fyrir vikið er verðið alveg viðunandi. Við erum með svona um 320 króna meðalverð fyrir óslægðan þorsk í janúar og 330 fyrir ýsuna. Í fyrra var þorskurinn á 340 krónur á sama tíma. Ef verkfallið væri leyst og eðlileg sjósókn væri verðið svona 270. Því má segja að við séum að græða 50 kall á kílóið vegna verkfallsins. Verkfallið plagar okkur ekki neitt en þetta hlýtur að vera að verða heldur aumt fyrir bæjarfélag eins og Grindavík og þess vegna væri gott að það færi að leysast.“

Júlíus segir að það sé þokkaleg lifur og hrogn komin í fiskinn, en það sé lítið æti í honum. „Ég hef verið í sambandi við einn kaupandann sem tekur 8+ fiskinn af mér. Hann segir hann sé þéttur og flottur og ekkert inni í honum. Tómur magi. Hann er rosalega ánægður með hann og fær hann oft án þess að láta bjóða hann upp.

Vantar lönguna

Þegar ég hef verið að koma með bátinn að austan fyrir jól undanfarin ár hefur maður alltaf verið að einbeita sér að löngu. Hef legið í Reykjanesröstinni og á bankanum að eltast við löngu, en núna er bara rosalega lítið af löngu. Við sjáum varla löngu. Hvergi og það er mikil breyting. Það hefur eitthvað gerst þar, hvort það er ofveiði eða eitthvað annað. Veiðin var miklu minni í fyrra en í hitteðfyrra og nú er sáralítið af henni. Hún hefur alltaf verið mesti meðaflinn, en nú er ekkert af henni. Fyrir vikið er svakalega hátt verðið á henni, miklu hærra en á þorskinum því það vantar svo mikið af löngu. Hún fæst bara ekki. Þetta er aðalbreytingin sem er að ganga yfir fyrir utan það að meira er af þorski.

Við höfum yfirleitt verið hérna fyrri part ársins og fram á vertíð. Þegar verðið dettur svo niður á mörkuðunum höfum við bara stoppað og slakað á og sparað kvóta. Á nýju fiskveiðiári förum við alltaf austur á firði og höfum verið þar og róið frá Neskaupstað og Djúpavogi og rennt okkur svo suður í október eða nóvember, en nú vorum við alveg fram að jólum fyrir austan, mest vegna þess að við biðum í þrjár vikur eftir ferðaveðri. Ætluðum að vera farnir fyrr. Þetta hefur verið frekar leiðinlegt veður og þungur sjór bæði fyrir austan og svo hér núna. En það er alltaf góð veiði fyrir austan á haustin 200 til 300 kíló á bala, stór fiskur, stutt að fara og alltaf fullur bátur. Þá er þetta lítið mál en á stundum þurftum við að sækja út á 40 til 50 líkur eftir stórum fiski,“ segir Júlíus Sigurðsson.

Deila: