Fimm norskir loðnubátar með liðlega 2.200 tonn til Neskaupstaðar
Loðnuveiðar norskra báta hafa gengið vel að undanförnu og streyma bátarnir inn á Austfjarðahafnir til löndunar. Í gær og nótt komu fjórir bátar til Neskaupstaðar: Brennholm með 500 tonn, Haugagut með 420 tonn, Gardar með 400 tonn og Nordfisk með 400 tonn. Í dag er síðan Talbor væntanlegur með 500 tonn.
Öll loðnan fer til manneldisvinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar og að sögn Jóns Más Jónssonar, framkvæmdastjóra landvinnslu, er hráefnið miklu betra en það var fyrir nokkrum dögum þegar loðnan var full af átu.
Myndin er frá Norðfjarðarhöfn í dag. Norsk loðnuskip með afla og heimaskipin bundin vegna verkfalls. Ljósm. Hákon Ernuson