10.900 tonna þorskkvóti í Barentshafi

Deila:

Gefinn hefur verið út kvóti fyrir þorskveiðar Íslendinga innan rússnesku lögsögunnar í Barentshafi. Hann verður alls tæplega 4.100 tonn eins og á síðasta ári. Kvóti okkar á þorski innan norsku lögsögunnar nú er 6.826 tonn, sem er nánast það sama og í fyrra. Íslensk skip hafa því heimildir til að veiða um 10.900 tonn af þorski í Barentshafinu að þessu sinni.

Einnig er möguleika á því að leigja frekari heimildir af Rússum, en í fyrra skilaði sú leiga ríflega 2.800 tonnum af þorski til viðbótar öðrum heimildum. Íslensk skip sóttu því tæplega 14.000 tonn af þorski í Barentshafið í fyrra auk nokkurs meðafla í ýsu og öðrum tegundum.

Mun fleiri skip fá úthlutað aflaheimildum í Barentshafi en nýta þær. Þannig sóttu aðeins átta skip afla í norsku lögsöguna, en 21 skip fengu úthlutun. Sjö skip komu með afla úr rússnesku lögsögunni, en 19 fengu úthlutað heimildum. Í báðum tilfellum fá flest skipin of litlar heimildir til að það borgi sig að sækja þær. Því safnast þær fyrir á færri skipum. Í fyrra Kom Þerney með mestan afla úr Barentshafi, samtals ríflega 2.800 tonn og næst kom Kleifaberg með ríflega 2.000 tonn

Eftir lítilsháttar tilfærslur er Þerney RE með mestar heimildir innan lögsögu Noregs í ár, 982 tonn. Sigurbjörg ÓF kemur næst með 971 tonn og í þriðja sæti er Arnar HU, 857 tonn. Ljóst er að miklar tilfærslur milli skipa eiga eftir að eiga sér stað. Þerney er sömuleiðis með mestar heimildir í rússnesku lögsögunni með 860 tonn. Næst kemur Sigurbjörg með 607 tonn og Arnar HU er með 498 tonn.

 

Deila: