Hrognaskurður hafinn á Akranesi

Deila:

Venus NS kom síðdegis í gær með um 2.000 tonna loðnuafla til Akraness. Að sögn Gunnars Hermannssonar verkstjóra hjá HB Granda í samtali við heimasíðu félagsins var hrognafyllingin í loðnunni komin yfir viðmiðunarmörk til hrognaskurðar og -frystingar og þroskinn þótti einnig nægilega mikill til að hrognataka gæti hafist.

,,Venus fékk þennan afla út af Þorlákshöfn og mælingar sýndu að hrognafyllingin var komin í 24% og þroski hrognanna var metinn 78%. Við byrjuðum því að skera hrogn til frystingar í gærkvöldi,“ segir Gunnar en jafnan hefur verið miðað við 23% hrognafyllingu eða meira þegar hrognaskurður og frysting á hrognum getur hafist. Japanskir kaupendur vilja helst að þroski hrognanna sé 80% eða meiri en Gunnar segir það einfaldlega ráðast af framboði og eftirspurn hvar kaupendur setji mörkin hverju sinni.

Reikna má með því að um helmingur loðnuaflans sé hrygna sem hentar til hrognaskurðar og frystingar á hrognum. Annar afli er flokkaður frá og fer til framleiðslu á fiskmjöli og lýsi auk afskurðarins. Um 50 manns starfa allan sólarhringinn í loðnuvinnslu HB Granda á Akranesi á meðan vertíðinni stendur.

,,Þetta er starfsfólk frystihússins og svo bætist við fólk sem starfað hefur á fleiri loðnuvertíðum hjá okkur. Þetta fólk er héðan úr bænum og eins úr sveitunum í nágrenni Akraness,“ segir Gunnar Hermannsson.

Deila: