Fjörutíu ára starf á Stokksnesi

Deila:

Annar mars 1977 er Sigurjóni Björnssyni minnistæður því þá mætti hann í fyrsta sinn til vinnu í ratsjárstöðina á Stokksnesi, skammt austan Hafnar í Hornafirði. Á þeim árum rak bandaríski herinn stöðina. Sigurjón er enn að, nú fagnar hann fjörutíu ára starfsafmæli sínu á Stokksnesi þar sem hann er nú staðarumsjónarmaður.

Sigurjón Björnsson Stokksnes

„Gamla ratsjárstöðin var rifin fyrir allmörgum árin en stöðin sem tók við hlutverki hennar var byggð 1989 og tekin í notkun nokkrum misserum síðar. Hún er hluti af íslenska loftvarnakerfinu og annast Landhelgisgæslan rekstur þess. Auk stöðvarinnar á Stokksnesi falla þrjár aðrar undir kerfið: ein á Miðnesheiði, önnur á Bolafjalli og sú þriðja á Gunnólfsvíkurfjalli. Í stjórnstöðinni á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli er unnið úr upplýsingum sem stöðvarnar fjórar senda frá sér og þeim miðlað.

Ásamt Sigurjóni starfar Guðmundur Ólafsson í stöðinni á Stokksnesi. Guðmundur bakaði vöfflur handa starfsfélaga sínum í tilefni dagsins en að öðru leyti gekk lífið þar sinn vanagang í gær með hefðbundnum viðhaldsverkefnum og öðru sem þarf að sinna svo ratsjáin virki eins og vera ber. Við óskum Sigurjóni innilega til hamingju með starfsafmælið,“ segir um þessi merku tímamót á heimasíðu Landhelgisgæslunnar.

Deila: