Landsel fækkar mikið
Síðastliðið sumar fóru fram talningar á landsel við Ísland þar sem flogið var með allri strandlengju landsins og selir taldir. Flugtalningarnar eru gerðar til að meta fjölda landsela og fylgjast með þróun stofnstærðar. Sambærilegar talningar á landsel hófust árið 1980 og var stofnstærðin þá metin um 33.000 dýr. Niðurstöður talningarinnar síðasta sumar gefa til kynna að fjöldi landsela við Íslandsstrendur sé um 7.700 dýr og er það minnkun frá síðustu talningu sem fram fór árið 2011 þegar fjöldinn var metinn 11-12.000 dýr.
Árið 2014 voru landselir taldir í stærstu landselslátrum landsins og komu þar fram vísbendingar um umtalsverða fækkun og niðurstöðurnar frá sl. sumri staðfesta að töluverð fækkun hefur átt sér stað í landselsstofninum á undanförnum árum og hefur stofn landsels minnkað um þriðjung frá árinu 2011. Núverandi stofnstærð er tæplega 80% minni en þegar stofnin var fyrst metin 1980. Samkvæmt viðmiðum stjórnvalda um stofnstærð landsela á Íslandi skal stofninn ekki fara niður fyrir 12.000 einstaklinga, en fari svo telja stjórnvöld nauðsynlegt að grípa til aðgerða. Stofninn er nú metinn vera tæplega 40% minni en viðmið stjórnvalda gefa til kynna.
Mesta fækkunin í stofninum átti sér stað á milli 1980 og 1990 þegar selir voru veiddir í mun meiri mæli en nú. Selveiði á sér ennþá stað og mögulegt er að fækkunin geti að hluta til skýrst af þeim en meðafli sela í fiskveiðum gæti einnig verið skýribreyta. Aðrir þættir s.s. hlýnun sjávar og breytingar í magni og útbreiðslu fæðu selanna gætu einnig haft áhrif. Þrátt fyrir vísbendingar um mikla fækkun er mikilvægt að hafa í huga að náttúrulegar sveiflur í stofnum villtra dýra eiga sér oft stað og frekari rannsóknir eru nauðsynlegar til að hægt sé að segja fyrir um ástæður fækkunarinnar með einhverri vissu.
Nálgast má skýrsluna hér: hafogvatn2017-009