Loðnuvertíð að ljúka

Deila:

Fá skip eru á loðnuveiðum þessa dagana enda er loðnukvótinn á þrotum og loðnan fyrir vestan land byrjuð að hrygna eða komin fast að hrygningu. Uppsjávarveiðiskip HB Granda, Venus NS og Víkingur AK, voru bæði í heimahöfn í gær með afla en til stendur að a.m.k. Víkingur fari eina veiðiferð til viðbótar.

Víkingur kom til hafnar á Akranesi um hádegisbil á miðvikudag með um 1.600 tonna afla sem fékkst í mörgum köstum að sögn Alberts Sveinssonar skipstjóra.

,,Það lóðaði lítið en loðnan sem fékkst var blönduð, bæði hængur og hrygna. Mér skilst að það hafi verið ágætis veiði eftir að við fórum af miðunum í gær og vonandi verður svo þegar við förum út eftir löndun,“ sagði Albert Sveinsson í samtali við heimasíðu HB Granda í gær.

Venus er á Vopnafirði en þangað kom skipið laust upp úr miðnætti í nótt með um 2.400 tonna afla.

„Við fengum þennan afla fyrir vestan utan hvað við tókum eitt kast úti fyrir Skagafirði á siglingunni hingað austur. Við fengum um 200 til 300 tonn í því kasti. Loðnan var svipuð og sú fyrir vestan að því undanskildu að hrognafyllingin var töluvert minni,“ sagði Guðlaugur Jónsson skipstjóri. Hann sagði að löndun lyki væntanlega ekki fyrr en annað kvöld en framhaldið væri óráðið.

Deila: