Ný flokkunarstöð opnuð á Akranesi

Deila:

Nýrri sorpflokkunarstöð HB Granda á Akranesi verður gefið nafn og hún formlega opnuð við athöfn sem haldin verður klukkan 16:00 í dag, fimmtudag að Vesturgötu 4.

Dagskráin er í stuttu máli þannig að Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda mun bjóða gesti velkomna. Því næst mun Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi, halda ávarp. Lýst verður úrslitum í samkeppni um nafn á flokkunarstöðinni sem staðið hefur yfir meðal starfsmanna undanfarnar vikur. Veitt verða verðlaun fyrir bestu tillöguna. Í framhaldi af því mun Vilhjálmur veita Bláa hernum fjárstyrk frá HB Granda til frekari hreinsunarstarfa en þau samtök hafa, sem kunnugt er, látið mikið að sér kveða við hreinsun strandlengjunnar mörg undanfarin ár. Síðan verður boðið upp á veitingar.

Þess má geta að tilgangurinn með starfrækslu sérstakrar sorpflokkunarstöðvar er að safna saman sorpi sem fellur til vegna starfsemi félagsins og dótturfélaga á Akranesi.  Markmiðið er að draga verulega úr urðun sorps og auka hlutfall  til endurvinnslu.

Með tilkomu flokkunarstöðvarinnar er öllu sorpi sem fellur til hjá félaginu á Akranesi safnað saman á einn stað þar sem nákvæm flokkun fer fram. Fyrirmynd af sorpflokkunarstöðinni eru flokkunarstöðvar sem starfræktar eru hjá HB Granda í Reykjavík og á Vopnafirði.

 

Deila: