Að hlúa að þekkingarsamfélagi

Deila:

Nótt Thorberg tók við starfi framkvæmdastjóra Marel á Íslandi fyrir níu mánuðum en starfaði fram að því á markaðssviði fyrirtækisins. Marel er í stöðugri framþróun og þá er ekki síður nauðsynlegt að hlúa vel að innviðum og starfsumhverfi og ýta undir jákvæða vinnustaðamenningu. Búa til öfluga liðsheild.

„Ég er ábyrg fyrir starfsemi Marel á Íslandi við innleiðingu á stefnu og rekstrarmarkmiðum Marel í nánu samstarfi við iðnaðinn og alþjóðleg stoðsvið félagsins,“ segir Nótt en undir hana heyra stoðsvið hérlendis sem eru fjármál, framleiðsla, mannauður og vöruþróun er jafnframt heyra undir alþjóðleg stoðsvið félagsins. Eins og Íslendingar þekkja er Marel í fararbroddi á heimsvísu hvað varðar þjónustu og þróun hátæknibúnaðar og kerfa til vinnslu á fiski, kjöti og kjúklingi. Félagið er með starfsstöðvar í 30 löndum um heim allan og eru starfsmenn um 4.600. Á Íslandi starfa um 530 manns við nýsköpun, framleiðslu, sölu og þjónustu.

Nótt hefur fjölbreyttan bakgrunn, er menntuð í myndlist og með leiðsögumannapróf auk þess að vera með M.Sc. gráðu í markaðsmálum frá the University of Strathclyde í Skotlandi og hafa lokið tveimur diplómagráðum á vegum the Chartered Institute of Marketing. Blaðamaður rifjar upp gömul menntaskólakynni af Nótt þegar hún starfaði, samhliða námi, í söluturni í miðbæ Reykjavíkur auk þess að hanna og framleiða eigin skartgripi sem hún seldi í vinsælum fataverslunum. Nótt hlær að þeirri minningu: „Ég hef alltaf haft marga bolti á lofti og átt fjölbreytt áhugasvið. Það er kannski þess vegna sem ég kann svo vel við mig hjá Marel. Hér er fjölbreytt og krefjandi umhverfi sem ég þrífst vel í. Við erum sífellt að huga að framtíðinni þegar kemur að framþróun í matvælavinnslu og að geta boðið nýjar endurbættar lausnir til að mæta aukinni eftirspurn í heiminum. Við erum sífellt að læra og bæta okkur og leggjum áherslu á þekkingarmiðlun, hugvit, gæði og gott samstarf. Að gera betur á morgun það sem vel er gert í dag.“

Að skapa réttu aðstæðurnar

Blaðamaður situr með Nótt í glæsilegum matsal fyrirtækisins, Bistro Blue, sem í raun má líkja við blöndu af hágæða veitingahúsi og notalegu kaffihúsi. Marel hefur fjárfest mikið í innviðum á undanförnum árum og nú standa yfir umfangsmiklar endurbætur og stækkun á húsnæðinu í Garðabæ.

„Samhliða því höfum við verið að vinna að því að skapa góðar aðstæður til að auka enn frekar samstarf milli sviða og ýta þannig undir jákvæða og hvetjandi vinnustaðamenningu sem jafnframt leiðir af sér enn betri árangur í störfum okkar. Breytingar á húsnæði eru mikilvægur liður í því en umhverfið og aukin samskipti spila saman til að skapa frjótt nýsköpunarumhverfi,“ segir Nótt. „Hér starfar afar fjölbreyttur hópur fólks með breiða þekkingu og sérþjálfun á mjög ólíkum sviðum. Hvernig tengjum við saman slíkan hóp og búum til gott og frjótt andrúmsloft? Stór hluti af mínu starfi felst þannig í að skapa réttu aðstæðurnar til að búa til öfluga liðsheild. Við erum eitt teymi, með sameiginleg markmið og einn tilgang.

Saman náum við árangri. Gildi félagsins; samheldni, nýsköpun og metnaður, tengja okkur saman og eru órjúfanlegur hluti af menningu okkar. Við horfum til þeirra gilda við ákvarðanatöku, í samskiptum og við úrlausn verkefna. Við vinnum jafnframt markvisst með fleiri þætti til að efla liðsheildina og teymisvinnu. Þessa dagana erum við til að mynda að vinna með hrós og endurgjöf. Við þurfum að fylgja straumum og stefnum í tækni- og vöruþróun en það er einnig afar mikilvægt að huga að því hvernig við fóstrum fólkið okkar og leyfum því að efla þekkingu sína og getu, starfa í umhverfi sem því líður vel í og hámarka þannig starfsánægju. Í þekkingarmiðuðu samfélagi er hver hlekkur mikilvægur og samvinna því afar mikilvæg. Í raun er Marel þekkingarsamfélag og það er allra hagur að við sköpum jákvætt og þroskandi starfsumhverfi,“ segir Nótt og bendir á að innan Marel starfi ólíkir hópar með ólíkar þarfir. „Innanhúss er til að mynda stórt hugbúnaðarhús, Innova, sem er framleiðsluhugbúnaður Marel og sem er einn stærsti vaxtarbroddur framtíðarinnar. Þar starfa hátt í 50 manns en í heildina starfa hér á Íslandi um 100 manns á sviði forritunar og í tengdum störfum. Í þessum hópi hefur orðið töluverð nýliðun á undanförnum árum. Þetta er gjarnan ungt fólk sem gerir kröfur um líflegra félagslíf og aukið frelsi hvað varðar stað og stund í vinnu.“

Tímamót í fiskvinnslu með fjórðu línunni

Marel hefur ávallt haft nýsköpun að leiðarljósi en sú hugsun hefur breytt Marel úr sprotafyrirtæki í heimsleiðtoga á sínu sviði. Nótt bendir á að breytingar á markaði séu örar, tækniþróun fljúgi fram og krafan um aukna sjálfvirkni, gæði og afköst verði æ meiri. „Spurn eftir matvælum vex gríðarlega og má búast við að hún aukist um 50% á næstu 15 árum. Við verðum að einblína á leiðir til að tryggja að hágæðamatvæli séu framleidd á hagkvæman og sjálfbæran hátt. Því er nauðsynlegt að fjárfesta í nýsköpun og hlúa vel að þekkingarsamfélaginu.“

Marel leggur að meðaltali 5-6% af veltu í rannsóknar- og þróunarstarf á ári hverju, sem er hæsta hlutfall sem fyrirfinnst í greininni. „Í vöruþróun Marel á Íslandi starfa til að mynda 120 manns. Fjórða kynslóð fiskvinnslulína okkar markar tímamót í fiskvinnslu. Má þar nefna tækni eins og FleXicut vatnsskurðavélar sem ýta ennfremur undir skilvirkni, bæta meðhöndlun og auka virði og nýtingu hráefnis. Íslensk fiskvinnslufyrirtæki eru dugleg að nýta sér nýjustu tækni en þróunarvinna okkar er gjarnan í nánu samstarfi við viðskiptavini okkar. Það góða samstarf hefur leitt af sér nýsköpun og lausnir sem hafa átt stóran þátt í að umbylta matvælavinnslunni,“ segir Nótt að lokum.

Viðtalið við Nótt birtist fyrst í Sóknarfæri.

Deila: