Sérhannað skip fyrir þau verkefni sem því er ætlað að leysa

Deila:

Bárður Hafsteinsson, skipaverkfræðingur hjá Verkfræðistofunni Skipatækni, hannaði Kaldbak EA 1 í samstarfi við stjórnendur og starfsmenn Samherja hf. Hann segir mikilsverðasta atriðið í hönnuninni felast í stærð skipsins. Ólíkt fyrri tíð hafi í hönnunarferlinu ekki þurft að laga skipið að einhverjum takmörkunum eða reglugerðum stjórnvalda. Með öðrum orðum hafi útgangspunkturinn verið að hanna skip sem best mæti öllum kröfum, þörfum og óskum útgerðarinnar.

Engar takmarkandi reglugerðir lengur

„Í gegnum tíðina höfum við þurft að laga okkur að einhverjum reglugerðum, úreldingu eldri skipa eða einhverju slíku. Sjálfur hef ég lengi barist fyrir því að hægt væri að hanna skipin eingöngu út frá veiðiheimildunum og þeim verkefnum sem skipunum væri ætlað að leysa.

Kaldbakur EA 1 er því fyrsta skipið sem við hönnum óháð slíkum reglugerðum og takmörkunum,“ segir Bárður. Hann hefur áratuga reynslu í hönnun fiskiskipa og segir vissulega miður hversu gömul mörg lykilskip í fiskiskipaflotanum eru orðin. Æskilegt hefði verið að ný skip leystu þessi gömlu af hólmi mun fyrr. Sem dæmi þá var eldri Kaldbakur EA smíðaður á Spáni árið 1974 og því kominn á fimmta áratuginn í aldri. Því gefur auga leið að nýi Kaldbakur er gjörbylting frá því skipi.

Perustefnið skilar margvíslegum ávinningi

„Það atriði við nýja Kaldbak sem vekur athygli flestra er væntanlega þetta mikla perustefni. Þetta er þróun sem hófst hjá okkur um 1985-1986 þegar togararnir Sjóli og Haraldur komu. Þeir voru með nokkuð stóra peru sem síðan hefur þróast áfram í hönnun og birtist í þeirri mynd sem fólk sér á Kaldbaki EA. Perustefnið skilar okkur margvíslegum ávinningi. Í fyrsta lagi betri sjóhæfni vegna þess að skipið klýfur ölduna í stað þess að það höggvi niður í hana og að þannig dragi úr siglingarhraðanum. Ávinningurinn er fyrir vikið að minni orku þarf til að knýja skipið í gegnum ölduna. Í skipinu sjálfu fæst líka mun meira rými vegna perustefnisins og það nýtist fyrir grandaraspilin og líka fyrir geymslur fyrir veiðarfæri og fleira,“ segir Bárður.

Orkan nýtist vel

Aðalvél Kaldbaks er 1620 kílówött og sú orka segir Bárður að nýtist vel, bæði í siglingarhraða og togkrafti. „Skrúfan er einnig stærri en áður tíðkaðist. Hún er 3,8 metrar í þvermál en var gjarnan um tveir metrar í þvermál á þessum 40 ára gömlu ísfiskskipum. Þau voru gjarnan með viðmiðum um togkraft upp á 17 tonn en til samanburðar er nýi Kaldbakur með 40 tonna togkraft. Munurinn er því mjög mikill. En við skulum líka hafa í huga að hér erum við að bera saman hönnun skipa með 40 ára millibili,“ segir Bárður.

Rúmgott vinnsluþilfar

Mörg önnur atriði vekja athygli þegar horft er til hönnunar Kaldbaks. Engar járnsúlur eru á vinnsluþilfarinu eins og alltaf tíðkaðist og það eitt og sér segir Bárður auðvelda verulega alla útfærslu vinnslubúnaðarins. Kaldbakur er ísfisktogari og lykilatriði í aflameðferðinni á vinnsluþilfarinu verður kæling aflans og meðferð hans en breytingin frá því sem almennt tíðkaðist áður fyrr er að frá aflanum verður gengið í ker á vinnsluþilfarinu í stað þess að aflinn fari á rennum niður í lest og að þar sé fiskinum raðað í kerin. Lyftubúnaður færir kerin niður í lest af vinnsluþilfarinu og þar er enn ein nýjungin í Kaldbaki, hollenskur lyftubúnaður, nokkurs konar hlaupaköttur, sem notaður er til að raða kerunum í lestina. Eins og annars staðar kemur fram um nýja Kaldbak verður búnaður á vinnsluþilfari smíðaður og settur í skipið á komandi mánuðum við bryggju á Akureyri.

Rafmagn í öllum spilbúnaði

Í Kaldbaki er allur spilbúnaður knúinn rafmagni og eru spilin frá norska framleiðandanum Seonics en umboðsaðili hér á landi er Vélar og skip. Sú lausn þykir bæði umhverfisvænni, sparar orku og er til muna hljóðlátari búnaður en vökvaknúnu spilin voru áður. „Orkunýting er einn af stóru þáttunum í hönnun skipsins og á öllum sviðum er horft til þess að spara orku og nýta sem best. Afgas er þannig notað fyrir upphitun skipsins og til að hita olíu. Þar er um að ræða varmaorku sem áður fyrr fór ónýtt út,“ segir Bárður.

Einstaklega hljóðlátt skip

Ónefnt er enn það atriði sem að sjálfsögðu er mikilsverðast, þ.e. að búnaður áhafnar, hvort heldur eru vinnusvæði skipsins eða íverustaðir. Í brú eru allar þær helstu nýjungar sem finna má í fiskileitar- og siglingatækjum,  rúmgóðir klefar, setustofa og matsalur.

„Kaldbakur er líka hljóðlátasta fiskiskip sem ég hef komið um borð í. Þessu er náð fram á margan hátt, bæði með vali á búnaði en að sjálfsögðu einnig í hönnuninni. Þannig eru klefar sérstaklega einangraðir, sama má segja um vélarrúm, gólf eru fljótandi og margt annað skilar því að skipið er afar hljóðlátt. Að sjálfsögðu skiptir það áhöfnina miklu máli en í heild er í hönnun skipsins horft til þess að gera skipið á allan hátt sem best úr garði fyrir áhöfnina, sem vinnustað og íverustað,“ segir Bárður.

 

Deila: