Skaginn 3X hlýtur Nýsköpunarverðlaun Íslands
Skaginn 3X hlaut í dag Nýsköpunarverðlaun Íslands fyrir framúrskarandi árangur á sviði þróunar á nýjum tæknilausnum fyrir bolfiskveiðiskip, myndavélatækni og sjálfvirkum uppsjávarkerfum. Verðlaunin voru veitt á Nýsköpunarþingi 2017 sem fór fram á Grand Hótel Reykjavík.
Nýsköpunarverðlaun Íslands eru veitt af Rannís, Íslandsstofu, Nýsköpunarmiðstöð og Nýsköpunarsjóði til fyrirtækja sem þykja hafa skarað fram úr í þróun nýrrar vöru eða þjónustu, sem byggð er á rannsóknar- og vísindastarfi og náð hefur árangri á markaði.
Skaginn 3X hefur verið leiðandi á svið tækninýjunga fyrir sjávariðnað á Íslandi síðan 1998 og hefur þróað nýjar lausnir í náinni samvinnu við fyrirtæki í sjávariðnaði. Má þar nefna nýja myndavélatækni sem tegunda- og stærðargreinir fiska og nýtist í sjálfvirka flokkun og upplýsingaöflun um borð í skipum og í uppsjávarvinnslum. Þá er SUB-CHILLING ný tækni við kælingu á fiski sem gerir iðnaðinum kleift að sleppa notkun íss við kælingu fersks fisks og stórauka um leið endingartíma og gæði vörunnar. Einnig má nefna heildstæð uppsjávarkerfi sem flokka, frysta og pakka sjálfvirkt. Þessi kerfi hafa stóraukið afköst í uppsjávarverksmiðjum ásamt því að bæta vinnuumhverfi starfsfólks til muna.
Ingólfur Árnason framkvæmdastjóri tók við verðlaununum. Hann segir þau vera mikinn heiður og um leið mikla viðurkenningu til starfsmanna fyrirtækisins fyrir það mikla þróunarstarf sem unnið hefur verið á liðnum árum. „Við höfum haft það að leiðarljósi að auka hagkvæmni við vinnslu sjávarafla og um leið að bæta afrakstur fiskistofna. Verðlaunin eru okkur því ekki síst mikil hvatning í þeim störfum okkar“.