Viðræður HB Granda og Akraness hefjast í dag

Deila:

Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda, segist vera hóflega bjartsýnn á að samningur náist við Akraneskaupstað um uppbyggingu á hafnarsvæði bæjarfélagsins og varar fólk við að gera sér of miklar vonir. „Við viljum leiða þetta til lykta sem allra fyrst til að geta aflétt óvissu. Það er ljóst að við erum að gefa þessu tíma í mesta lagi fram í lok maí. Við munum gefa þessu máli lengri tíma. Vonandi verða komnar skýrar línur í þetta sem fyrst,“ segir Vilhjálmur í samtali við Morgunblaðið í dag. Aðspurður hvort hópuppsagnarferlið muni þá hefjast að nýju í lok maí segir hann að það sé raunin. „Við munum þá þurfa að ráðast í uppsagnir fyrir 1. júní ef ekki verður komin einhver niðurstaða í viðræðurnar sem fær okkur til að taka aðra ákvörðun.“

Bæjarstjórinn bjartsýnn

Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri Akraness, segir ákvörðun HB Granda vera tækifæri til þess að ná samningum. „Ég er bjartsýnn á að við getum fundið leið í sameiningu til þess að láta þetta ganga upp. Ég vil þó taka fram að það er ekkert gefið, það er ýmislegt sem þarf að vinna að fyrir alla aðila, en þetta er gott fyrsta skref og við getum unnið út frá því. Þetta felur í sér töluverð tækifæri,“ segir Sævar. „Ég er bara þakklátur að HB Grandi skuli taka það skref að gefa okkur hjá Akraneskaupstað tækifæri til að setjast niður og semja. Ég hef sagt að það þurfi þrjá til í þessar viðræður. Í fyrsta lagi þarf Akraneskaupstað og við sýndum sterkan vilja með viljayfirlýsingunni í gær. Í öðru lagi þurfti HB Granda og þeir eru núna að sýna eindreginn vilja til að semja. Þriðji aðilinn er svo Faxaflóahafnir,“ segir Sævar en hann hefur fulla trú á að Faxaflóahafnir sýni einnig vilja.

Formaðurinn með von í brjósti

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, segist einnig ætla að halda í vonina um að hægt sé að ná að semja við HB Granda. „Ég ætla að fá að bera þá von í brjósti, það hefur í tvígang verið vilji HB Granda að hafa starfsemina hér á Akranesi. Þeir hafa nefnt leiðir til þess og núna með þessari viljayfirlýsingu bæjarstjórnarinnar er hægt að ráðast í þessar viðræður af fullum þunga,“ segir Vilhjálmur, aðspurður hvort hann telji að samningar muni nást. „Ég ætla að leyfa mér að vera vongóður þar til annað kemur í ljós,“ segir Vilhjálmur.

Hófstilltar væntingar

„Ég vil jafnframt ítreka það sem ég sagði á fundi með starfsmönnum að byggja ekki upp of miklar væntingar meðal starfsmanna meðan þetta ferli er í gangi,“ segir Vilhjálmur Birgisson. Hann segir að starfsfólk fiskvinnslunnar líti á þetta sem ákveðinn varnarsigur. „Óvissa um lífsviðurværi er bagaleg því atvinnuöryggi er í raun lýðheilsumál. Að hafa ekki atvinnu brýtur niður andlegt þrek. Ábyrgð manna sem hafa lífsviðurværi fólks í höndum sér er mikil og nú verða menn að vinna hratt og vel.“

Deila: