Sporðrennum við minna af fiski?

Deila:

Árleg fiskneysla Íslendinga virðist fara lækkandi miðað við tölur í ársskýrslu Fiskistofu, sem reyndar miðast við fiskveiðiárið. Samkvæmt henni fóru 6.758 tonn af fiski upp úr sjó til neyslu innan lands á síðasta fiskveiði ári. Það er 866 tonnum minna en fiskveiðiárið þar á undan, er 7.624 tonn fóru þá til neyslu innan lands.

Til neyslu innanlands á síðasta ári fóru 4.297 tonn af þorski, sem er um 900 tonnum minna en árið áður. 2.205 tonn af ýsu voru borðuð í fyrra, sem er aukning um 30 tonn. Næsta fisktegund á vinsældarlistanum er skarkoli, en þjóðin sporðrenndi 173 tonnum af honum á síðasta fiskveiðiári. Það er einu tonni meira en í fyrra. Af ufsa voru borðuð 36 tonn, 22 tonn af síld og sama magn af skötusel.

Samkvæmt þessu var fiskneyslan ríflega 20,4 kíló á mann á síðasta fiskveiði ári, en 23,8 fiskveiðiárið þar á undan lauslega reiknað.

Þetta eru opinberar tölur um ráðstöfun fiskaflans og er þar ekki tekið tillit til þess, sem sjómenn taka með sér í land að lokinni veiðiferð, sem stundum er kallað “grams“ eða „pokafiskur“. Þá eru ekki inni í þessu upplýsingar um neyslu á vatnafiski eins og eldislaxi og bleikju. Gera má ráð fyrir að neyslan tvöfalt meiri en tölur Fiskistofu gefa til kynna, en þær eru vissulega vísbending um að fiskneysla fari minnkandi. Skoðanakannanir Lýðheilsustofu benda til að neyslan geti verið tæplega 50 kíló og að hún fari minnkandi. Þær gefa ennfremur til kynna að ýsan sé langvinsælasti fiskurinn á matardiskum okkar Íslendinga sé ýsan, en ekki þorskurinn eins og lesa má úr tölum Fiskistofu.

Deila: