Eimskip styrkir stöðu sína á markaði með gáma 

Deila:

Eimskip hefur styrkt stöðu sína með kaupum á 51% hlut í CSI Group LLC (Container Services International), félagi sem sérhæfir sig í kaupum og endursölu á gámum og eignum tengdum skipaflutningum. Höfuðstöðvar félagsins eru í Boston í Bandaríkjunum. Með kaupunum er Eimskip að auka við þekkingu sína á gámainnkaupum, leigu á gámum og viðskiptum með notaða gáma. Fjárfestingin nemur um 1,0 milljón evra.

CSI var stofnað árið 2011 og framkvæmdastjóri þess er Stephan Howard sem hefur 25 ára reynslu af gámaviðskiptum og hefur á að skipa víðfeðmu neti af tengiliðum um allan heim með mikla sérþekkingu. CSI og samstarfsaðilar félagsins viðhalda birgðum víðsvegar um Bandaríkin. Stephan Howard mun halda áfram að eiga 49% hlut í CSI og mun leiða félagið sem framkvæmdastjóri.

CSI sérhæfir sig í sölu og leigu á nýjum og notuðum gámum, fyrir geymslu og skipaflutninga en einnig í sérútbúnum gámabúnaði. CSI býður einnig uppá ráðgjafarþjónustu í gámaviðskiptum. Velta félagsins á ársgrundvelli er um 5 milljónir evra og EBITDA framlegð er um 10%.

„Það er ánægjulegt að CSI er nú orðið hluti af samstæðu Eimskips og félagið mun styrkja enn frekar þekkingu Eimskips í innkaupum og viðhaldi á gámum og gámastýringu. Kostnaðarstýring á gámaflotum flutningsaðila um allan heim hefur verið krefjandi verkefni undanfarin misseri og þess vegna sjáum við ávinning í þeirri þekkingu sem við bætum nú við okkur til lækkunar gámakostnaðar Eimskips, bæði hvað varðar eigin gáma  og gáma sem Eimskip er með á leigu um allan heim. Ég býð Stephan Howard og starfsmenn CSI með sína dýrmætu reynslu velkomna og hlakka til samstarfsins með þeim,“ segir Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips.

„Það gleður mig að CSI er nú orðið hluti af stærri heild sem mun auðvelda félaginu að raungera frekari vaxtartækifæri, bæði til skemmri og lengri tíma, í Bandaríkjunum og annars staðar. Eimskip sameinar sterka skipaflutningshefð og ríka þjónustulund við viðskiptavini. Umhverfið undanfarið hefur gert okkur kleift að byggja upp gott samband við Eimskip og ég hlakka til nánara samstarfs með samstæðunni,“ segir Stephan Howard, framkvæmdastjóri CSI.

Deila: