Lærdómur dreginn af reynslu Íslendinga

Deila:

„Mikilvægt er að virða náttúruna með því að nýta villta stofna á sjálfbæran hátt. Skynsamlegt er að virða hráefnið með því að nýta það sem er dregið úr sjó, gera sem mest úr aflanum. Þá er virðing borin fyrir samfélaginu með því að gera sem mest verðmæti úr því sem tekið er til vinnslu.
Nýting þess fisks sem aflast hefur lengi verið til umræðu. Áhersla hefur aukist á gæði og dregið hefur úr áherslu á magn. Ábyrg umgengni um auðlindir hafs hefur jákvæðar víðtækar afleiðingar. Umgengni Íslendinga um auðlindir hafsins hefur batnað til muna og þykir nú til eftirbreytni. Lagt er upp með að vanda til verka við meðhöndlun íslensks sjávarfangs,“ svo segir í umfjöllun á heimasíðu Matís.

Matís hefur, ásamt Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), Hampiðjunni og Marel, verið virkur þátttakandi í DiscardLess verkefninu sem leitt er af danska tækniháskólanum DTU frá upphafi (mars 2015). Verkefninu er ætlað að greiða fyrir innleiðingu á brottkastsbanninu sem verið er að innleiða innan evrópska fiskiskipaflotans. Evrópskir ráðamenn og aðrir hagaðilar horfa til Íslands og annarra landa sem reynslu hafa af að starfa undir brottkastsbanni og því er innlegg Íslands mikilvægt í verkefninu, auk þess sem Matís leiðir einn vinnupakka og er með lykilhlutverk í nokkrum öðrum vinnupökkum.

Meðal aðgerða sem íslensk stjórnvöld hafa gripið til með það fyrir augum að stemma stigu við brottkasti má nefna, sveigjanleika við tilfærslu aflaheimilda, heimild til löndunar meðafla utan aflaheimilda hvar meirihluti aflaverðmætis rennur í Verkefnasjóð Sjávarútvegsins, reglur um hlutfall hausa af afla vinnslu skipa sem landað skuli í samræmi við lestarrými vinnsluskipanna, eins má rifja upp reglur um löndun grásleppu og kvaðir um löndun lifrar þorsks, ufsa, löngu, keilu og skötusels sem og þorsk og ufsa hrogna (við grásleppu veiðar). Aukin áhersla á nýtingu afla til verðmætasköpunar hefur leitt til þess að lifur er tekin með í reikninginn við skiptingu aflaverðmætis skv. hlutaskiptakerfi.

Dagana 6. – 10. mars fór ársfundur í DiscardLess verkefninu fram í Róm. Fundurinn í Róm var annar ársfundur í DiscardLess og markar hann að verkefnið er nú hálfnað. Frá Matís tóku þeir Jónas Rúnar Viðarsson og Kristinn Ólafssson þátt í fundinum, sem þótti takast með eindæmum vel. Fundurinn var haldinn í höfuðstöðvum FAO og var sóttur af 60 þátttakendum og um 50 hagaðilum (stakeholders) sem voru innvinklaðir í fundardagskrána á ýmsan veg. Ísland átti sinn fulltrúa í hópi hagaðilanna, Kristján Þórarinsson frá SFS, sem sat fundinn fyrir hönd íslensks sjávarútvegs og talaði þar máli útgerða sem starfað hafa undir brottkastsbanni í rúma þrjá áratugi. Kristján hélt áhugaverða tölu sem vakti mikla athygli, þar sem hann skýrði frá áhrifum brottkastsbannsins á íslenskan sjávarútveg. Hvað þar við nokkuð annan tón en heyrst hafði frá kollegum hans í Evrópu, sem höfðu kvartað mikið yfir banninu. Kristján færði rök fyrir því að bannið hafi verið mikið gæfuspor fyrir íslenskan sjávarútveg og að það væri í raun skylda þeirra sem treyst er fyrir náttúruauðlindum að fara vel með.

Jónas fór yfir nokkur af mikilvægustu atriðunum sem draga má lærdóm af reynslu Íslendinga af brottkastbanni, nærri fjögra áratuga þrotlausri viðleitni til bættrar umgengni um auðlindir sjávar og aukinnar sjálfbærni. Jónas vék einkum að þeim atriðum sem eru auðveldlega yfirfæranleg og nýta má í fjölbreyttum sjávarútvegi víðsvegar fyrir ströndum Evrópulanda. Þá sýndi Jónas þróun sem átt hefur sér stað fyrir Íslandsströndum í tilviki ýsu. Sem og tillögur að bættum aðbúnaði um borð í fiskiskipum á Biscayflóa þannig að áhafnir geti gert að aflanum og komið með allan afla að landi.

Hér er örstutt myndbrot sem víkur að nýtingu Íslendinga á auðlindum sjávar.

https://youtu.be/fcvAgZ5nSos

 

Deila: