Vísitala grásleppu há

Deila:

Mikið fékkst af grásleppu í marsralli á árunum 1985-1990, en um helmingi minna næstu tíu árin. Upp úr aldamótum fór stofnvísitalan hækkandi en lækkaði síðan aftur til ársins 2013. Vísitala grásleppu hefur síðan hækkað og mældist nú svipuð og undanfarin tvö ár.

Stofnvísitala hlýra hækkaði á árunum 1990-1996 en hefur lækkað mikið síðan þá. Vísitölur áranna 2010-2017 eru þær lægstu frá upphafi. Lítið fékkst af hlýra undir 50 cm líkt og undanfarin ár.

Vísitala litla karfa var stöðug fyrstu tvo áratugina en hefur síðan þrefaldast. Að hluta til má rekja aukninguna til mikils magns á fáum togstöðvum enda eru öryggismörk mælinganna há.

Stofnvísitala lýsu hefur þróast með svipuðum hætti og hjá ýsu; lágmark á árunum kringum aldamótin, hámark 2003-2007 og niðursveifla undanfarin ár. Eins og hjá ýsu varð þó hækkun á vísitölu lýsu frá fyrra ári.

Síðustu tvö ár hefur magn skötusels mælst minna en árin 2003-2015, en er samt meira en fyrstu 15 ár stofnmælingarinnar. Allir árgangar skötusels frá 2008 hafa mælst slakir í samanburði við árgangana frá 1998-2007 og fyrsta mæling á árganginum frá 2016 bendir til að hann sé lítill.

Tindaskata fæst frá grynnstu til dýpstu stöðva og allt í kringum landið. Vísitala tindaskötu hefur verið stöðug en þó má greina hæga lækkun frá aldamótum.

Suðlægar tegundir

Upp úr aldamótum fór magn ýmissa suðlægra tegunda vaxandi við sunnanvert landið, m.a. silfurkóðs, svartgómu og litlu brosmu. Af þessum tegundum fengust aðeins stakir fiskar fyrstu 15 árin í marsralli en árin 2010-2014 var fjöldi þeirra talinn í hundruðum. Minna hefur fengist af silfurkóði síðustu þrjú ár, en svartgóma og litla brosma virðast hafa fest sig í sessi.

Botnhiti

Hitastig sjávar við botn mældist að meðaltali hátt líkt og undanfarin ár. Fyrir Norðvestur-, Norður- og Austurlandi var hitastig botnsjávarins með því hæsta sem sést hefur á rannsóknatímanum. Í hlýsjónum við sunnan og suðvestanvert landið var botnhiti svipaður og að meðaltali frá árinu 2003. Á flestum svæðum mældist botnsjórinn nú um 1-1,5 °C hlýrri en var að meðaltali í mars árin 1990-1995.

 

Deila: