Aflinn vonandi að glæðast aftur

Deila:

,,Ég er að vonast til að aflinn sé að glæðast aftur. Það var góð veiði sólarhring áður en við komum á miðin en síðan dró úr honum. Það var skítabræla hér í gær en veðrið er að skána og innkoman í trollið hefur verið fín frá því í morgun,“ sagði Albert Sveinsson, skipstjóri á Víkingi AK, er rætt var við hann síðdegis í gær á heimasíðu HB Granda.

Víkingur var komin á miðin syðst í færeysku lögsögunni sl. laugardag.

,,Við köstuðum í framhaldi af því og síðan var dregið. Aflinn í holinu í gær var 250 tonn en við köstuðum aftur í morgun og miðað við innkomuna í trollið þá hífum við í kvöld. Lóðningar eru ágætar og ég hef trú á því að aflinn sé að glæðast,“ segir Albert Sveinsson.

Fjöldi skipa er nú að veiðum á svæðinu en auk íslenskra skipa eru þar færeysk, rússnesk og grænlensk skip. Nokkur íslensk skip bíða þess í Færeyjum að komast til veiða en samkvæmt samningi Íslands og Færeyja mega 12 íslensk skip vera samtímis að kolmunnaveiðum í færeysku lögsögunni.

Deila: