Sjávarréttirnir mælast vel fyrir

Deila:

Sýningarbás HB Granda á sjávarútvegssýningunni Seafood Expo Global í Brussel í Belgíu hefur að vanda vakið nokkra athygli sýningargesta, ekki síst vegna sjávarréttanna sem þar eru bornir fram á meðan sýningunni stendur. Það er Oddur Smári Rafnsson matreiðslumaður sem á  heiðurinn af sjávarréttunum en Oddur Smári hefur að undanförnu unnið sem kokkur hjá Norðanfiski á Akranesi

HB Grandi Kokkur Brussel

Sjálfur er sýningarbásinn um 90 fermetrar að stærð og var hann hannaður af Íslensku auglýsingastofunni í samráði við starfsmenn HB Granda. Oddur Smári hefur staðið vaktina á básnum alla sýningardagana en meðal þess, sem boðið er upp á, er sjávarréttasúpa, léttreyktur karfi með kartöflusalati og dill kremi, þorsk brandaða á brauði með brenndum sveppum, léttsaltaður karfi með rauðrófumús og grænu masago, maki rúlla með ufsa í shiracha með lárperu og sítrónugrasi og blandað sjávarsalat.

,,Maturinn hefur bragðast mjög vel og bæði vakið lukku meðal gesta og haldið starfsfólki gangandi,“ segir Brynjólfur Eyjólfsson, framkvæmdastjóri markaðssviðs HB Granda, en hann getur þess að innkaupalistinn fyrir sýninguna hafi verið langur hvað varðar matföngin.

Þess má geta að Oddur Smári fer beint frá Brussel til að sinna opnun nýs veitingahúss á Norðurbakka í Hafnarfirði. Það hefur fengið nafnið Brikk brauð & eldhús.

 

 

Deila: