Sterk pantanastaða og traustur rekstur

Deila:

Árið byrjar vel hjá Marel. Nýjar pantanir á fyrsta ársfjórðungi 2017 námu 293 milljónum evra sem dreifast vel á milli kjúklinga-, kjöt- og fiskiðnað auk þess að vera vel dreifðar á milli vöruflokka og heimsálfa. Pantanabókin stendur í 390 milljónum evra og hefur aldrei verið stærri. Til samanburðar var pantanabókin 340 milljónir evra á sama tíma fyrir ári síðan. Tekjur námu 252 milljónum evra og EBIT var 14.9%. Þetta kemur fram í frétt frá Marel og segir þar ennfremur:

Fjárhagsstaða félagsins er traust og sjóðsstreymi sterkt. Á fyrsta ársfjórðungi 2017 var samþykkt að greiða hluthöfum arð og keypt voru eigin bréf fyrir alls 22,1 milljónir evra. Skuldahlutfallið er x2,19 EBITDA við lok fyrsta ársfjórðungs 2017 sem er í samræmi við stefnu félagsins um fjárhagsskipan.

Marel hefur tryggt framlengingu á fjármögnun félagsins á hagstæðum kjörum sem endurspegla fjárhagslegan styrk Marel og markaðsaðstæður. Fjármögnunin nemur um 640 milljónum evra á vaxtaálaginu EURIBOR/LIBOR + 185 bps, sem mun breytast með skuldsetningarhlutfalli félagsins við lok hvers ársfjórðungs. Lokagjalddagi fjármögnunarinnar er í maí 2022. Þessar breytingar auka sveigjanleika í rekstri og styðja við metnaðarfulla áætlun félagsins um vöxt og virðisaukningu til lengri tíma litið sem kynnt var á aðalfundi félagsins í mars síðastliðnum.

„Árið 2017 byrjar vel fyrir Marel og við sjáum vöxt í tekjum, rekstrarhagnaði og pantanastöðu. Innri vöxtur tekna frá fyrra ári nemur nærri 8% og rekstrarafkoma er traust með um 15% EBIT*.

Marel er nú að uppskera afrakstur stöðugrar fjárfestingar okkar í nýsköpun og styrkingu okkar á vöruframboði heildarlausna. Pantanastaða er sterk og jafnvægi er á milli kjúklinga- kjöt- og fiskiðnaða um heim allan.

Fjárhagsstaða félagsins og sjóðsstreymi eru sterk. Við tilkynnum nú um framlengingu fjármögnunar okkar á hagstæðum kjörum sem gefur okkur aukin sveigjanleika til að styðja við metnaðarfulla áætlun okkar um vöxt og virðisaukningu.

Ég vil þakka viðskiptavinum okkar og starfsfólki fyrir frábært starf, í sameiningu erum við að umbreyta matvælaframleiðslu á heimsvísu,“ segir Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel:

 

Horfur

Marel stefnir á 12% árlegan meðalvöxt tekna næstu 10 árin.

 • Marel gerir ráð fyrir að markaðsvöxtur nemi 4-6% á næstu árum
 • Marel ætlar að vaxa hraðar en markaðurinn með sterkri markaðsstöðu og nýsköpun
 • Áframhaldandi traustur rekstur og sterkt sjóðstreymi getur stutt við 5-7% ytri meðalvöxt á ári
 • Marel gerir ráð fyrir að hagnaður á hlut vaxi hraðar en tekjuvöxtur

Áætlaður vöxtur verður ekki línulegur og veltur á þeim tækifærum sem í boði eru hverju sinni og hagsveiflum. Gera má ráð fyrir því að afkoman verði breytileg milli ársfjórðunga vegna efnahagsþróunar, sveifla í pöntunum og tímasetningu stærri verkefna.

Kauphallardagur Marel í Danmörku

Marel heldur kynningarfund með fjárfestum og markaðsaðilum í sýningarhúsi sínu Progress Point í Kaupmannahöfn þann 2. nóvember 2017. Frekari upplýsingar og skráning verða kynnt á heimasíðu félagsins marel.com á komandi vikum.

 • Tekjur á fyrsta ársfjórðungi 2017 námu 252,5 milljónum evra [1F 2016: 220,6m]. Pro forma tekjur á fyrsta ársfjórðungi 2016 námu 233,9 milljónum evra.
 • EBITDA á fyrsta ársfjórðungi 2017 var 46,0 milljónir evra sem er 18,2% af tekjum [1F 2016: EBITDA 38,2m, 17,3% af tekjum]. Pro forma EBITDA á fyrsta ársfjórðungi 2016 nam 42,5 milljónum evra eða 18,2% af tekjum.
 • EBIT* á fyrsta ársfjórðungi 2017 var 37,7 milljónir evra sem er 14,9% af tekjum [1F 2016: EBIT* 31,1m, 14,1% af tekjum]. Pro forma EBIT* á fyrsta ársfjórðungi 2016 nam 35,2 milljónum evra eða 15,1% af tekjum.
 • Hagnaður fyrsta ársfjórðungs 2017 nam 21,3 milljónum evra [1F 2016: 13,8m]. Hagnaður á hlut var 2,99 evru sent [1F 2016: 1,93 evru sent].
 • Handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta nam 37,9 milljónum evra á fyrsta ársfjórðungi 2017 [1F 2016: 27,9m]. Skuldahlutfall (nettó skuldir/EBITDA) í lok fyrsta ársfjórðungs 2017 var x2,19.
 • Pantanabókin stóð í 390,3 milljónum evra við lok fyrsta ársfjórðungs 2017 samanborið við 349,5 milljónir evra í lok fjórða ársfjórðungs 2016 [1F 2016: 339,9m].
 • * Rekstrarniðurstaða aðlöguð fyrir afskrift á óefnislegum eignum sem tengjast yfirtöku á MPS.
 • Pro forma rekstrarniðurstaða er samanlagður rekstur Marel og MPS. Pro forma tölur auðvelda samanburð á undirliggjandi rekstri á milli tímabila.
 •  

 

 

Deila: