Steiktur lax með fenníkusalati og raita-sósu
Lax er lúxus matur, hvort sem hann kemur úr eldi eða er veiddur á stöng í ám eða jafnvel í sjó. Hann er fullur af omega3 fitusýrum og annarri hollustu og bara einstaklega góður á bragðið, nánast sama hvernig hann er eldaður. Og svo er fjölbreytnin í uppskriftum nánast óendanleg, því lax er borðaður um veröld víða.
En við förum ekki langt eftir uppskriftinni, sækjum hana upp á Skaga, því hún er fengin frá Norðanfiski á Akranesi, en fyrirtækið heldur úti fyrirtaks uppskriftasíðu og selur auk þess fiskinn í þær.
Innihald:
- 800 g lax
Fenníkusalat
- 1 góður fenníka (fennel), skorin eins þunnt og hægt er
- Safi úr ½ sítrónu
- Salt og pipar
- ½ rauður chili
- 2 msk jómfrúarolía
Raita-sósa
- 1 meðalstór agúrka
- 300 ml hein jógurt
- Ögn af chili-fræjum
- ¼ tsk mulið kóríander
- 60 g rauðlaukur, fínsaxaður
- 1 msk sítrónusafi
- 3 msk fersk minta, fínsöxuð
- Svartur pipar, nýmulinn
Aðferð:
Fenníkusalat: Öllu blandað vel saman í skál og geymt í u.þ.b.10 mín.
Raita-sósa: Agúrkan er skræld, skorin eftir endilöngu og kjarninn tekin úr, skorin í þunnar sneiðar og sett í skál með 1 tsk af salti og geymd í 30 mín. Blandið jógúrtinni saman við saltaða agúrkuna, chili-fræin, sítrónusafann, rauðlaukinn, ögn salti og pipar, mintu og kóríander. Blandið vel saman og setjið í kæli (geymist vel í 24 tíma).
Steikið laxinn vel í olíu á vel heitri pönnu í u.þ.b. 3–4 mín. á hvorri hlið, kryddið með salti og pipar. Berið fram með fenníkusalati og raita-sósunni.