Venus til Vopnafjarðar með 2.500 tonn

Deila:

Frekar rólegt er yfir kolmunnaveiðum í færeysku landhelginni þessa dagana. Bæði uppsjávarveiðiskip HB Granda hafa verið þar að veiðum og er Venus NS nú á leið til heimahafnar á Vopnafirði með um 2.500 tonna afla.

Að sögn Hilmars Kárasonar, 2. stýrimanns á Venusi, er skipið nú statt vestan við Færeyjar í gær en reiknað er með því að það kæmi til hafnar á Vopnafirði um miðjan dag í dag.

Róbert Axelsson, skipstjóri á Venusi NS, sagði í samtali við heimasíðu HB Granda um miðja vikuna að togað væri lengi í hvert sinn og að 350 til 500 tonna afli fengist að jafnaði í hverju holi. Þá var aflinn kominn í 1.600 til 1.700 tonn og að sögn Hilmars hefur hann verið svipaður alla veiðiferðina. Kolmunninn er á norðurleið og munu skipin fylgja honum eftir.

Samkvæmt upplýsingum Sveinbjörns Sigmundssonar, verksmiðjustjóra HB Granda á Vopnafirði, voru bæði Venus og Víkingur AK í höfn um síðustu helgi með samtals rétt rúmlega 5.000 tonna afla. Rúma fimm sólarhringa tók að vinna aflann og gekk það vel að sögn Sveinbjörns Sigmundssonar.

 

Deila: