„Strandveiðikerfið verður að efla“

Deila:

„Ég gæti valið mér að starfa á skrifstofu þar sem ég er menntaður ferlahagfræðingur en finnst sjómennskan einfaldlega miklu skemmtilegri. Hún togar alltaf í,“ segir Vigfús Ásbjörnsson, smábátasjómaður á Höfn í Hornafirði og formaður Hrolllaugs, félags smábátasjómanna Hornafirði. Hann var að leggja lokahönd á undirbúning strandveiðitímabilsins þegar rætt var við hann á dögunum og segist hlakka til sumarsins þó útlitið sé ekki bjart hvað rekstrarhorfur útgerðarinnar snertir. Mjög brýnt sé að gera verulegar breytingar á strandveiðikerfinu og mikilvægt að það skref verði stigið þar sem reynslan af strandveiðunum hafi sýnt hversu miklu lífi það hafi hleypt í útgerð smærri báta í byggðunum út um landið.

Vigfús trillukarl

Eignaðist fyrsta bátinn í fyrra

„Ég hef verið í sjómennsku frá 16 ára aldri en í fyrra keypti ég mér eigin bát og byrjaði að gera hann út á strandveiðar. Smábátaútgerð hér á Höfn var nánast horfin þegar strandveiðarnar komu til sögunnar og þær hafa algjörlega hleypt nýju lífi í höfnina. Núna eru hátt í 20 smábátar á strandveiðum, þó að kerfið sé ekki öflugra en það er. Að okkar mati er alltof lágu hlutfalli aflamarks úthlutað til strandveiða og því er lítið út úr þessu að hafa. Flestir þeir sem stunda strandveiðar hér á staðnum eru kvótalausir og eru í störfum á öðrum tímum ársins. Hér höfum við litla möguleika á grásleppuveiðum þó einstaka bátar hafi farið eitthvað lengra austur til að fara á þær veiðar,“ segir Vigfús.

Náum ekki lágmarkslaunum

Afli strandveiðibátanna á Höfn fer alfarið á fiskmarkað og segir Vigfús að alla jafna sé fiskurinn af heimamiðunum vænn og fyrir hann fáist ágætt verð.

„Fiskverðið hefur verið mjög lágt að undanförnu og þess vegna erum við afar svartsýnir á sumarið hvað það varðar. Við gætum alveg séð allt að 30% lægra verð en í fyrra og miðað við útkomuna í fyrra er erfitt að mæta því. Þrátt fyrir að maður sé að borga sjálfum sér lágmarkslaun og innan við það þá ber útgerðin það ekki, þó svo að hámarksafli náist á hverjum degi og róið sé mjög stíft. Við verðum að sjá betri afkomu í þessu, bæði til að menn geti haldið launum, viðhaldið bátunum og annað sem til þarf. Stærsta skýringin á þessari stöðu sem uppi er núna er gengisþróunin að undanförnu og hún snertir okkur strandveiðimennina eins og aðra í greininni. Hljóðið er mjög þungt í strandveiðimönnum almennt, vegna fiskverðsins og þess hversu lítið við fáum að veiða en flestir ætla að róa, enda kostar alltaf sitt að eiga bátana og mikilvægt að ná inn á þá þeim tekjum sem mögulegt er,“ segir Vigfús.

Skorar á þingmenn að efla strandveiðikerfið

Höfn tilheyrir D-svæði strandveiðikerfisins en mikil viðbrögð urðu við þeirri ákvörðun Gunnars Braga Sveinssonar, þáverandi sjávarútvegsráðherra, þegar hann skerti í fyrra hámarksafla á svæðinu um 200 tonn. Smábátasjómenn í Hrollaugi á Höfn brugðust mjög hart við þessari ákvörðun og gáfu ráðherranum rauða spjaldið fyrir. Vigfús segist því fagna þeirri ákvörðun Þorgerðar K. Gunnarsdóttur, núverandi sjávarútvegsráðherra, að auka heildaraflann á D-svæðinu á nýjan leik um 200 tonn.

„Já, auðvitað erum við ánægðir með þessa leiðréttingu á ákvörðun ráðherra á síðasta ári en engu að síður eru heimildirnar í strandveiðinni alltof litlar. Í heild er verið að bæta við 200 tonnum milli ára en strandveiðarnar eiga að okkar mati miklu meira inni í aukningu miðað við aukningu heildarafla síðustu ár. Þar munar þúsundum tonna ef litið er aftur til ársins 2011 þannig að strandveiðin hefur því miður ekki fengið réttláta meðferð hjá stjórnvöldum.

Núna eru komin fram tvö frumvörp á Alþingi, bæði frá VG og Pírötum, þar sem lagðar eru til breytingar til eflingar á strandveiðikerfinu. Við Hrollaugsmenn styðjum þær heilshugar og ég skora á þingmenn að samþykkja annað hvort þessara frumvarpa. Þau eru skref í átt að aukinni sanngirni og ég vona að stjórnmálamenn sjái að sér og grípi í taumana því út um allt land má sjá hversu jákvæð áhrif strandveiðin hefur haft í byggðarlögunum. Þetta kerfi hefur sýnt sig vera mjög áhrifamikið skref í byggðafestu út um landið en ég vil bæði sjá aukningu heildarafla og að þessi „ólympíski“ veiðihvati hverfi úr kerfinu. Kapphlaup í veiðum á smábátum er mjög óæskilegt og gerir að verkum að menn róa stíft þó veður sé vont. Bræla er óþekkt hugtak á strandveiðum vegna þess hvernig fyrirkomulagið í kerfinu er og það má ekki ógna öryggi manna með þessum hætti. Í fyrrasumar var veðrið okkur mjög hagstætt hér á Höfn en það er alls ekki sjálfgefið og við þekkjum vel hvaða aðstæður geta verið hér í innsiglingunni.

Þó við hér á Höfn og á D-svæðinu fögnum því að leiðrétting fáist á gjörningi sjávarútvegsráðherra í fyrra þá er okkar aðal keppikefli að berjast fyrir betra veiðikerfi fyrir alla strandveiðisjómenn, hvar svo sem þeir eru á landinu.“

Krókaveiðar ættu að vera frjálsar

Vigfús segir stærsta baráttumálið að fá aukna úthlutun heildarafla til strandveiða en hann fer ekki í grafgötur með þá skoðun að óþarft sé að takmarka jafn mikið veiðar smábáta og nú er gert.

„Auðvitað væri allra best að mínu mati að krókaveiðar yrðu alfarið gefnar frjálsar, íslensk fiskveiðiþjóð á það skilið að hafa þau tækifæri fyrir þegna sína. Ég hef enga trú á að smábátaflotinn gæti ógnað viðgangi fiskistofna við Ísland þó krókaveiðar yrðu frjálsar. Það er ofmat,“ segir Vigfús og nefnir mikilvægi strandveiðanna hvað varðar nýliðun í smábátaútgerð. Sjálfur er hann gott dæmi um mann sem fjárfestir í sínum fyrsta bát til að hefja útgerð í strandveiði.

„Stjórnmálamenn nota gjarnan strandveiðina sem dæmi um leið fyrir þá sem vilja koma undir sig fótunum í útgerð. Á sama tíma er svo naumt skammtað til kerfisins að menn geta ekki einu sinni greitt sér lágmarkslaun í þessari útgerð. Við sem erum að basla í þessu erum meira af hugsjón en skynsemi í þessu og verðum að treysta á önnur störf til að hafa framfærslu á ársgrundvelli. Hér á Höfn sést vel að strandveiðin hefur laðað yngri menn inn í smábátaútgerð en til að þessi hópur geti byggt sig upp í greininni til framtíðar þarf að styrkja rekstrargrunninn verulega, fyrst og fremst með auknum heildarafla. Þá yrði útgerðin samfelldari yfir sumarið og veiðitímabilið jafnvel lengra. Óbreytt kerfi er með öðrum orðum ávísun á ákveðna gildru sem menn sitja fastir í,“ segir Vigfús.
Viðtalið við Vigfús birtist fyrst í Ægi nú í maí.

 

 

 

Deila: