Lifnar yfir togaramiðunum eystra
Ísfisktogarinn Barði NK kom til löndunar í Neskaupstað í gær eftir stutta veiðiferð. Aflinn var 80 tonn og uppistaða hans var ufsi og karfi. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri segir að vel hafi veiðst.
„Þetta var örstuttur túr hjá okkur, einungis þrír dagar frá höfn í höfn. Við vorum að veiðum í Berufjarðarál og aflinn bendir til þess að það sé að lifna yfir miðunum hér fyrir austan, en á þeim hefur verið nánast ördeyða að undanförnu. Ufsinn sem við fengum hefði hins vegar mátt vera stærri,“ sagði Steinþór í samtali við heimasíðu Síldarvinnslunnar.
Barði mun halda til veiða á ný í kvöld.