Gera áhættumat fyrir erfðablöndun laxastofna

Deila:

Vinna er hefin á gerð áhættumats vegna mögulegrar erfðablöndunar eldislax við íslenska, villta laxastofna. Þetta kemur fram í svari Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Bjarna Jónssonar, varaþingmanns Vinstri grænna samkvæmt frétt á ruv.is

Starfshópur í stefnumótun um fiskeldi að störfum

Í svari ráðherra kemur fram að vinnan sé hafin fyrir tilstuðlan starfshóps sem vinnur að stefnumótun í fiskeldi. Markmið áhættumatsins er: „Að meta hve mikið umfang eldis má vera á hverjum stað án þess að það valdi óafturkræfum skaða á náttúrulegum laxastofnum vegna erfðablöndun,“ segir í svari ráðherra.

Leitað til erlendra sérfræðinga

Við vinnuna eru notuð gögn um hlutfall sleppinga, áhrif hafstrauma, fjarlægð áa og stofnstærð laxa í ám auk erfðasamsetningar villtra stofna. Gögnum verður safnað en svo leitað til erlendra ráðgjafa á sviði erfðablöndunar. Hafrannsóknastofnun annast framkvæmd verkefnisins en samkvæmt svari ráðherra er búið að ráða tvo erlenda sérfræðinga sem vinna að líkanagerð ásamt Hafrannsóknastofnun en fullvinna svo reiknilíkan fyrir mögulegri erfðablöndun. Tilgangur verkefnisins er að leitast við að gera stjórnvöldum betur kleift að stýra þróun fiskeldis.

Mikið deiluefni

Blöndun eldislax af norskum uppruna og íslenskra villtra laxastofna er eitt megin deiluefni mikils vaxtar í fiskeldi við Ísland. Hafrannsóknastofnun hefur hingað til unnið burðarþolsmat fyrir firði þar sem er fyrirhugað fiskeldi í sjó en það nær ekki til áhrifa laxeldis á villta laxastofna.

 

Deila: