Áforma aukið fiskeldi í Skutulsfirði

Deila:

Hábrún ehf. í Hnífsdal áformar aukið fiskeldi í Skutulsfirði. Fyrirtækið hefur verið með leyfi fyrir 200 tonna framleiðslu á regnbogasilungi og þorski frá árinu 2002. Nú stefnir Hábrún á að auka framleiðsluna í 1000 tonn á ári. Þar sem eldið fer yfir 200 tonn þarf fyrirtækið að tilkynna það til Skipulagsstofnunar samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum.

Fyrirrennari Hábrúnar, fyrirtækið Álfsfell ehf., sendi tilkynningu um aukið fiskeldi til Skipulagsstofnunar árið 2009. Skipulagsstofnun úrskurðaði sama ár að aukið fiskeldi þyrfti að fara í umhverfismat.

Að mati stjórnenda Hábrúnar byggðist ákvörðun Skipulagsstofnunar á varkárni vegna lífrænna efna, uppsöfnunar þeirra og dreifingar. Í tilkynningu Hábrúanar til Skipulagsstofnunar segir forsendurnar frá 2009 hafi breyst umtalsvert. Til að mynda voru á þeim tíma tvö fyrirtæki með eldisleyfi á svæðinu en nú hefur það breyst þar sem Hábrún ræður nú yfir báðum leyfunum. Álfsfell stundaði fyrst og fremst þorskeldi þar sem fóðrað var með miklu magni af síld, loðnu og makríl svo uppsöfnun lífrænna leifa var meiri í eldi á regnbogasilungi sem Hábrún ætlar að leggja megin þungann á. Þá segir í tilkynningunni að með árunum hafi stöðugt orðið skýrara að áhrif fiskeldis á botndýralíf séu staðbundin og afturkræf.

Mynd og texti af bb.is

 

Deila: