Mun meira af norsk-íslensku síldinni innan lögsögunnar

Deila:

Mun meira er nú af norsk-íslenskri síld innan landhelginnar og útbreiðsla mun meiri en verið hefur undanfarin ár. Síldin er fyrr á ferðinni en áður og gengin vestar. Þetta kemur fram í bráðabirgðaniðurstöðum rannsóknaskipsins Árna Friðrikssonar austur og norðaustur af landinu.

Í vikunni lauk tæplega þriggja vikna löngum leiðangri Árna Friðrikssonar sem hafði það meginmarkmið að meta magn og útbreiðslu norsk-íslenskrar síldar og kolmunna austur og norðaustur af landinu. Umfangsmiklar mælingar voru einnig gerðar til að kanna ástand hafsins og vistkerfisins, m.a. með rannsóknum á magni átustofna. Þessi árlegi leiðangur í norðaustanvert Atlantshaf í maí var nú farinn í 23. árið í röð og taka þátt í honum auk Íslendinga rannsóknarskip frá Noregi, Færeyjum, Danmörku og Rússlandi.

Niðurstöður hans eru meðal annars nýttar við stofnmat á norsk-íslenskri síld innan Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) og við vöktun á langtímabreytingum vistkerfisins og ástandi hafsins. Sameiginleg úrvinnsla á leiðangursgögnum skipanna fimm mun fara fram á næstu vikum og verða niðurstöður kynntar og notaðar á fundi ICES í lok ágúst nk. þar sem vinna við stofnstærðarmat og ráðgjöf þessara uppsjávarfiskistofna fer fram.

Hafró Síldarmælingar 2017

Bráðabirgðaniðurstöður frá íslenska hluta leiðangursins liggja hinsvegar fyrir. Þær sýna mun meiri útbreiðslu og magn á norsk-íslenskri síld innan landhelginnar austur af landinu en verið hefur undanfarin vor (mynd 1).  Síldin er því fyrr á ferðinni en áður og er gengin vestar. Eftir hrygningu við Noreg heldur síldin til vesturs í fæðuleit og í maí er síldin ýmist nýkomin í lögsögu Íslands eða enn að ganga frá hrygningarsvæðunum. Ungsíld frá uppeldisvæðum í Barentshafi og norsku fjörðunum heldur einnig í fæðugöngur en hún heldur sig yfirleitt norðar og austar en sú eldri.

Í íslenska hluta leiðangursins fannst nær eingöngu eldri hluti stofnsins, einkum 12 og 13 ára gömul síld, sem hefur verið uppistaðan í veiði undanfarinna ára. Austar í hafinu, undan ströndum Noregs, hafa önnur rannsóknarskip fundið yngri síld. Er það einkum árgangur frá 2013 en vísbendingar frá fyrri leiðöngrum hafa bent til að hann kunni að vera stór. Úrvinnsla gagna frá leiðangri þessa árs mun leiða það betur í ljós.

Hafró kolmunnamælingar 2017

Á Íslands-Færeyjarhryggnum varð vart við kolmunna svo og í hlýsjónum suðaustur af Jan Mayen (mynd 2). Þéttleikinn var að öllu jöfnu lítill. Kolmunninn var blandaður af stærð en var öllu smærri norðar. Nær ekkert varð vart við makríl í leiðangri Árna Friðrikssonar í ár en á undanförnum árum hafa einungis fáeinir fiskar fengist í einstaka togum milli Íslands og Færeyja. Þessar niðurstöður gefa því ekki tilefni til að álykta eitthvað um makrílgengd inn á íslensk hafsvæði í sumar.

Leiðangursstjóri í leiðangrinum á Árna Friðrikssyni var Guðmundur J. Óskarsson og skipstjóri Ingvi Friðriksson.

 

Deila: