Kolmunnaskipin halda í Rósagarðinn

Deila:

Heldur hefur hægst á kolmunnaveiðinni í færeysku lögsögunni að undanförnu en þó koma skip enn til löndunar með góðan afla. Margrét EA landaði 1.700 tonnum í Neskaupstað í fyrradag og í gær landaði Hákon EA 1.650 tonnum á Seyðisfirði. Þá kom Bjarni Ólafsson AK með tæplega 1.800 tonn til Neskaupstaðar í gær. Íslensku skipunum á kolmunnamiðunum hefur farið fækkandi að undanförnu.

Heimasíða Síldvarvinnslunnar hitti Runólf Runólfsson, skipstjóra á Bjarna Ólafssyni, að máli í gær og spurði hann hvernig veiðarnar á Færeyjamiðum gengju. „Það hefur heldur hægst á kolmunnaveiðinni í færeysku lögsögunni en þó eru dagarnir misjafnir. Fiskurinn gengur í norður og um þessar mundir er veitt í svokölluðu Ræsi rétt norðan við Færeyjabanka. Þessi túr hjá okkur tók viku að meðtalinni siglingu en við vorum fimm daga á veiðum. Aflinn fékkst í sex holum og var togað frá 10 og upp í 23 tíma. Já, lengsta holið var 23 tímar og það er lengsta hol sem ég hef nokkru sinni tekið. Aflinn í hverju holi var í kringum 300 tonn. Við erum nýbúnir að fá þær gleðifréttir að Aðalsteinn Jónsson SU hafi tekið eitt hol í Rósagarðinum og fengið 200 tonn af góðum kolmunna. Það er afar mikilvægt að kolmunni veiðist í íslensku lögsögunni og því eru þetta frábær tíðindi,“ sagði Runólfur.

Ljóst er að fréttin um kolmunna í Rósagarðinum leiðir til þess að íslensk kolmunnaskip munu reyna fyrir sér þar. Í morgun stefndu bæði Bjarni Ólafsson og Beitir NK þangað. Það verður spennandi að fylgjast með því hvort verulegt magn af kolmunna hafi gengið inn í íslenska lögsögu.

Ljósmynd Smári Geirsson.

Deila: