Stærsti fóðurprammi landsins tekinn í notkun
Arnarlax hf. á Bíldudal hefur tekið í notkun nýjan fóðurpramma sem getur blásið 720 kílóum af fóðri á mínútu, eða 43 tonnum á klukkustund. Fóðurpramminn er sá stærsti sem er í notkun á landinu. Hann var smíðaður í Eistlandi og kostar 300 milljónir kr.
Pramminn tekur 650 tonn af fóðri, eða álíka og fullfermi hjá meðal frystitogara. Pramminn hefur fengið nafnið Arnarborg en hann verður til sýnis í Tálknafjarðarhöfn í dag fimmtudag, frá kl. 16-18 og eru allir velkomnir
Prammanum er stjórnað úr landi af sérhæfðu starfsfólki Arnarlax í stjórnstöð á Bíldudal, en starfsfólkið fylgist einnig með ástandi fisks og búnaðar í gegnum fullkomið myndavélakerfi.
Farið er með fóðurprammann að sjókvíunum og hann rækilega festur með ankerum. Slöngur eru lagðar í kvíarnar og fóðrinu blásið úr prammanum.
Í prammanum eru öflugar ljósavélar, góð aðstaða fyrir mannskap og annar tæknibúnaður sem þarf til að sinna nútíma fiskeldi. Farið er út í prammann nánast á hverjum degi til að fylla á fóðurgeymslur, kanna ástand hans og sinna viðhaldi.