Erum stolt af því að skila miklu til samfélagsins

Deila:

„Við erum stolt af því að vera hluti af sjávarútvegi sem skilar miklu til samfélagsins. Við erum í atvinnugrein sem stendur sig vel, er að byggja upp til framtíðar og skilar miklu inn í þjóðarbúskapinn. Við trúum því ekki að svo mikið verði lagt á greinina að hún verði ekki lengur sjálfbær. Auðvitað verður alltaf karpað um það hversu mikið eigi að skattleggja fyrirtækin og sú umræða er eðlileg og verður alltaf til staðar. Ég held að allir skilji það að það er gott fyrir samfélagið að sjávarútvegurinn standi vel.“

Erla Ósk Pétursdóttir

Þetta segir Erla Ósk Pétursdóttir, mannauðs- og þróunarstjóri Vísis hf. Í Grindavík, í samtali við Sóknarfæri. Íslenskur sjávarútvegur keppir við sjávarútveg í öðrum löndum þar sem veiðigjöld eins og hér tíðkast eru mun umfangsminni og má þar nefna Noreg og Evrópusambandið. Rætt er við hana um rekstrarumhverfið í dag, fyrirtækið og gæðastefnu þess og stjórnun fiskveiða.

100% húsið

„Vísir er fjölskyldufyrirtæki sem gerir út fimm línuskip og tvær fiskvinnslur. Saltfiskvinnslu, sem er búin að vera á sama stað öll 50 ár fyrirtækisins. Þrátt fyrir að sama varan í grunninn sé enn framleidd, hefur þar verið mikið um tækninýjungar. Hitt húsið er nýtt.  Það er frystihús þar sem við erum með frystan og ferskan fisk. Það er hátæknihús þar sem við erum að nýta allt það nýjasta í vinnslutækni. Við tölum oft um það sem 100% húsið. Það sýnir tæknina sem er 100% íslensk hönnum og framleiðsla á vélunum og svo nýtum við allt hráefnið 100% eins og við gerum í saltfiskvinnslunni. Þetta sýnir í raun hversu langt íslenskur sjávarútvegur er kominn.

Við seljum svo afurðirnar út um allan heim. Þurrkaðar afurðir seljum við í gegnum fyrirtækið Haustak til Nígeríu, söltuðu afurðirnar fara inn á Evrópu, Spán, Ítalíu og Grikkland mest og loks erum við með frystar og ferskar afurðir sem fara til meginlands Evrópu, Bretlands og Bandaríkjanna. Tæpleg 300 manns vinna hjá fyrirtækinu, 100 sjómenn og 200 í landi,“ segir Erla Ósk.

Vísir gerir eingöngu út línuskip og hefur tæp 17.000 tonna kvóta fyrir þau. Erla segir að draumurinn sé að auka kvótann, því vinnslur fyrirtækisins ráði við að taka við meiri afla til vinnslu og skipin geti skilað meiri afla að landi. Fyrirtækið leggur áherslu á að fullvinna sem mest af öllum sínum fiski í Grindavík og nýta allt sem á land kemur.

Áhersla á gæðin alla leið

„Við leggjum mikla áherslu á gæðin í gegnum allt ferlið. Við erum að hámarka verðmætin hjá okkur með því stunda ábyrgar fiskveiðar og huga að gæðunum allt frá því fiskurinn kemur um borð og í gegnum allt vinnsluferlið. Í þessum efnum er mikil gróska og þróun í dag og eru neytendur orðnir meðvitaðri um rekjanleika og ábyrga fiskveiðistjórnun. Það er gott fyrir Íslendinga, því við stöndum mjög framarlega í þeim málum borið saman við önnur lönd.

Við höldum oft Íslendingar að við séum að keppa við næsta sjávarútvegsfyrirtæki í bænum eða annars staðar á Íslandi. Í raun er allur íslenskur fiskur að keppa við önnur matvæli um hylli neytenda. Í því umhverfi er mikilvægt að vera með ýmsar vottanir, bæði á því að við stundum ábyrgar sjálfbærar fiskveiðar og að inni í því eru rekjanleikavottanir þannig að við getum sannað að fiskurinn sem við erum að selja, komi í raun úr fiskistofnum þar sem fiskveiðistjórnun er ábyrg.“

Vísir Nýja Fristihúsið 1

Erla Ósk bendir á að stjórnvöld hafi stjórnað veiðum hér við land af mikilli ábyrgð og ákvarðanir um leyfilegan heildarafla séu teknar á vísindalegum forsendum. Og í gildi er aflaregla sem kveður á um að aðeins megi veiða ákveðið hlutfall úr hverjum fiskistofni á hverju fiskveiðiári. „Stöðugleikinn í þeim efnum er mjög mikilvægur. Sem dæmi um það mætti taka að í efnahagshruninu fóru stjórnvöld ekki þá leið að heimila meiri veiðar til að fá meiri tekjur inn í þjóðarbúskapinn. Það hefði verið á skjön við aflaregluna og ábyrga, sjálfbæra fiskveiðistjórnun. Þess í stað var ákveðið að stunda ábyrgar veiðar við erfiðar efnahagsaðstæður og það sýndi umheiminum að okkur var alvara með ábyrgri fiskveiðistjórnun. Að veiða meira en ráðlegt er, er bara eins og að pissa í skóinn sinn. Það færir okkur kannski aukinn afla tímabundið, en er í raun mikið ábyrgðarleysi og trúverðugleiki okkar bíður hnekki. Því er það mikilvægt að stjórnvöld setji ramma sem byggir á vísindalegri ráðgjöf og ábyrgri nýtingu. Það er svo okkar að vinna innan þess ramma af sömu ábyrgð, en gera jafnframt eins mikið úr því sem okkur stendur til boða og mögulegt er.“

Meðhöndlun fisks er yfir höfuð mjög góð á Íslandi og eru fyrirtækin sífellt að leita leiða til að bæta sig og fá alþjóðlegar vottanir á gæðaferli sín. Kröfur kaupenda og neytenda eru sí vaxandi og sjálfbærni og rekjanleiki skipta æ meira máli við sölu afurðanna. Íslensku fyrirtækin hafa verið vel í stakk búin að mæta þessum áskorunum.

Veiðum stýrt eftir þörfum markaðsins

„Eftir að kvótakerfið kom á er hver og einn með ákveðið magn sem veiða má yfir árið. Til að stýra því hvernig við veiðum fiskinn hefur gjörbreyst. Skipstjórarnir fara ekki á sjó og reyna að fylla skipin af þeim fiski sem best er að ná í hverju sinni, eins og áður var og svo reynt að koma því í verð í gegnum vinnsluna. Nú er byrjað á því að meta hvað það er sem markaðurinn þarfnast hverju sinni. Þá er bátunum beint á þau svæði, þar sem líklegast er að fá þann fisk, sem markaðurinn vill.

Þetta er mögulegt þar sem við erum komin með yfir 20 ára gögn um veiðisvæðin og aflann. Við höfum við skráð hvaða afla við fengum á hverju svæði á hvaða tíma og með hvaða beitu o.fl. Þannig getum við til dæmis skoðað hvar er líklegast að fá ákveðna fisktegund og stærð miðað við ákveðinn tíma árs. Við höfum tengt veiðar, vinnslu og sölu saman í gagnagrunnana hjá okkur og getum því ennfremur séð hver var nýtingin úr veiðum á tilteknu svæði á tilteknum tíma. Við erum farin að nota þetta í auknum mæli til að beina bátunum þangað sem líklegast er að fá þann fisk sem markaðurinn þarfnast hverju sinn. Við höfum verið að nota þetta kerfi í langan tíma og þegar krafan um rekjanleika kom fram fyrir um tíu árum samhliða umhverfisvottununum, vorum við með þetta kerfi til staðar. Við gátum þá þegar sýnt hvaðan fiskurinn kom, hvar hann var veiddur, hvenær og af hvaða skipi. Þannig nýtist gagnabankinn okkar bæði til að stýra veiðunum og uppfylla kröfur um rekjanleika.

Markaðurinn ræður þannig ferðinni þegar unnið er að því að fá hæsta verðið fyrir afurðirnar hverju sinni. Þeim mun meira sem maður getur stýrt því hvað er veitt, því meiri möguleikar eru á því að fá hærra verð. Þegar báturinn fer úr höfn liggur fyrir að hverju er stefnt og hvenær hann á að vera í landi.  Nýja vinnslutæknin í frystihúsinu hefur einnig gert mikið til að hámarka verðmætin.  Nýja skurðarvélin, FleXicut, ákveður hvernig best er að skera flakið í bita miðað við lögun flaksins og verðin á mörkuðunum.  Eftir að við tókum nýja frystihúsið í gagnið snýst hver dagur meira um takt í veiðunum og vinnslunni. Við hugsum minna um magnið en meira um stöðuga vinnslu. Bátarnir eru úti í fimm til sjö daga og landa reglulega frá sunnudegi og fram eftir viku og þannig erum við alltaf með nýjan fisk beint í vinnsluna.

Það er algjörlega nauðsynlegt að vera með góða tengingu milli veiða, vinnslu og markaðar til að ná árangri. Það skiptir miklu máli að vita hvers konar hráefni er að koma inn í vinnsluna og vera með tengingu við markaðinn til að vita hvað er best að veiða og framleiða á hverjum tíma.“

Gengið veldur erfiðleikum

Ekki fer á milli mála að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki standa í fremstu röð slíkra fyrirtækja um víða veröld. Við höfum fengið staðfestingu á því að Íslendingar reka hagkvæman og sjálfbæran sjávarútveg sem skilar miklu til samfélagsins. En hvernig er rekstrarumhverfið núna, ætti ekki allt að vera í lukkunnar velstandi?

„Nú er það hið háa gengi íslensku krónunnar sem er mest að hrjá okkur.  Reksturinn verður einfaldlega miklu erfiðari með sterkara gangi. Við höfum farið í gegnum miklar breytingar á síðustu árum, til að geta tekist á við breytilegt rekstrarumhverfi og erum mjög fegin því nú að hafa gert það. Þannig erum við í dag betur í stakk búin til að takast á við erfiðleika. En framleiðnin dregst mikið saman milli ára, bara út af genginu, þó við séum að bæta reksturinn á margan hátt og bæta taktinn, er þetta háa gengi krónunnar stór biti,“ segir Erla Ósk og heldur áfram.

„Þetta er reyndar ekkert nýtt. Sjávarútvegurinn hefur alla tíð farið í gegnum hæðir og lægðir og það eru ekki nema um tíu ár síðan staðan í gengismálum var svipuð. Útvegurinn hefur sýnt að hann hefur burði til að bregðast við og gera það sem þarf að gera til halda velli og vera áfram í fremstu röð í sjávarútvegi í heiminum. Nú þarf hann bara að fá möguleika til að vinna sig út úr þessum þrengingum. Það eru blikur á lofti vegna stöðunnar í íslenskum stjórnvöldum, en það verður bara að bíða fram á haustið til að sjá hvort auknar gjaldtökur verða það sem stjórnmálamennirnir færa okkur á einhverju erfiðasta rekstrarári þennan áratuginn. Þá liggur það fyrir að skuldaskjólið sem mörg sjávarútvegsfyrirtæki hafa getað nýtt sér hingað til við greiðslu veiðigjalda, er nú ekki lengur fyrir hendi. Því munu veiðigjöldin hækka hjá mjög mörgum í haust. Verði gjöldin svo hækkuð til viðbótar gæti það orðið ansi stór biti.“

Uppboð aflaheimilda framundan?

Ekki er bara óvissa um veiðigjöldin, heldur grunn sjálfrar fiskveiðistjórnunarinnar og töluvert rætt um að bjóða upp aflaheimildir á opinberum markaði með einhverjum hætti.

„Já, það er margt í umræðunni nú. Ekkert kerfi er fullkomið og má ýmsu breyta, en ég segi að besta kerfið sé það sem skapar langtíma stöðugleika fyrir fyrirtækin og starfsfólk þeirra, því það skilar mestu til samfélagsins. Það hefur ekki komið skýrt fram í hverju svokölluð markaðsleið myndi felast.  Markaðsleiðin er í raun fyrningarleið þar sem hluti kvótans er tekinn af öllum og boðinn upp, en verður þetta opið uppboð þar sem hæstbjóðandi fær kvótann óháð hvar hann er á landinu? Mér finnst ólíklegt að það verði, uppboðin verði frjáls þar sem hæstbjóðandi fái kvótann, þó það skili mestu til ríkisins, því önnur lönd hafa fallið frá slíku uppboði þar sem það leiðir til samþjöppunar í greininni. Miðað við umræðuna í dag þá finnst mér ólíklegt að það sé það sem stjórnvöld vilja. En það er erfitt að tjá sig um það sem talað er um að eigi hugsanlega að koma,“ segir Erla Ósk.

Færri og stærri fyrirtæki

Sú þróun sem er í tæknivæðingu sjávarútvegsins ein og sér gerir það að verkum að fyrirtækin verða færri og stærri. Til þess að hafa efni á þessum bestu tækjum þarf mikið magn af fiski til að fara í gegn um vinnsluna. „Þess vegna fækkar þeim stöðum sem bera uppi öfluga fiskvinnslu og í stað þess að berjast á móti þeirri þróun og jafnvel banna hana, verðum við að vinna með breytingunum. Umræðan um fækkun fiskvinnslna á landsbyggðinni er eðlileg en hin hliðin á sama peningi er að mikil fjárfesting hefur orðið um allt land í fiskvinnslum og nýjum skipum. Sjávarútvegurinn er ennþá dreifður hringinn í kringum landið en breytingin er sú að þetta eru færri og stærri kjarnar.  Að sjálfsögðu verður að ræða hvað gera skal á þeim stöðum, þar sem vinnsla verður ekki. Hingað til hefur lausnin verið að útvega kvóta á þessa staði eins og byggðakvóta. Mér finnst að umræðan ætti að vera aðeins breiðari. Kannski er eitthvað annað sem hentar viðkomandi svæðum betur en hefðbundinn sjávarútvegur. Stjórnvöld eiga að leiða þessa umræðu og ná saman um það hvernig við sem samfélag viljum að þetta þróist með hinni öru tækniþróun. Veiðar og vinnsla á uppsjávarfiski er búin að fara í gegnum þessar breytingar. Nú eru bara nokkur stór fyrirtæki í uppsjávarfiskinum á landinu. Þessi þróun er styttra komin í bolfiskinum og þar ætti að taka af skarið og hefja umræðuna fyrir alvöru.

Visir saltfiskvinnsla 2

Það er mikið í umræðunni að sjávarútvegurinn sé eina atvinnugreinin sem eigi að standa undir byggð í landinu. En í raun þarf að taka fyrst um það ákvörðun hvernig sjávarútveg við viljum reka á Íslandi. Ef hagkvæmni og sjálfbærni er markmiðið, svo útvegurinn geti skilað miklu til samfélagsins í hvaða formi sem er, þá á það að vera á hreinu. Umræðan um að halda uppi byggð með úthlutun veiðiheimilda kemur alltaf upp en hún samræmist illa hinum markmiðunum. Þá er það spurningin vilja menn heldur nýta sjávarútveginn til að viðhalda byggð við strendur landsins. Slíkt fyrirkomulag er ólíklegra til að skilja samfélaginu miklum tekjum. Ég vil heldur hafa öflugan sjávarútveg  sem skilar miklu til samfélagsins, en sjávarútveg sem einhvers konar byggðastofnun.

Í ljósi þess að aflaheimildir eru að færast frá smærri stöðum ættu stjórnvöld að huga að samgöngum svo hægt sé að sækja atvinnu milli byggðarlaga og byggja upp önnur tækifæri til atvinnu á þeim stöðum. Eins og ég sagði þá sýnist mér þróunin vera sú að það verði ákveðnir sjávarútvegskjarnar hringinn í kringum landið, sem hafa nóg hráefni fyrir öfluga vinnslu. Þá þarf að gera fólkinu kleift að komast þangað til að sækja vinnu. Það þarf ekki endilega að koma fiskur í staðinn fyrir fisk. Það er svo margt annað sem kemur til greina. Við eigum að vera stolt af því að fækka erfiðum og leiðinlegum störfum í sjávarútveginum til að skapa önnur betri.

Skapa betri störf

Tækniþróunin fækkar störfunum á gólfinu hjá okkur, en við erum að kaupa allar þessar vélar af íslenskum fyrirtækjum og skapa þar betri störf en þau, sem eru að fara. Staðreyndin er einnig sú að það hefur verið erfitt að manna þessi störf og í mörgum tilfellum hefur þurft að leita til annarra landa eftir vinnuafli. Við erum nú þegar farin að sjá glitta í stöðuna frá 2007 þegar mjög erfitt var að fá fólk til starfa í sjávarútvegi, bæði til lands og sjós. Það er til dæmis ekki lengur langur listi af sjómönnum sem eru tilbúnir til að koma um borð ef vantar menn í áhöfn. Það er uppgangur í samfélaginu og þó laun í sjávarútvegi séu góð, er nú orðið auðveldara að hoppa yfir í önnur störf. Því er það mikilvægt að sjávarútvegsfyrirtækin séu nógu sterk til að geta boðið góð laun til að geta haldið góðu fólki. Við þurfum því að hlúa vel að starfsfólkinu okkar“ segir Erla Ósk Pétursdóttir.
Viðtalið birtist fyrst í Sóknarfæri í dag.

 

 

 

Deila: