Ásbjörn seldur til Íran

Deila:

Gengið hefur verið frá sölu á ísfisktogaranum Ásbirni RE 50 til íransks útgerðarfélags og verður togarinn afhentur kaupendum í næstu viku. Að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, forstjóra HB Granda, er söluverð togarans 450.000 USD eða jafnvirði um 45 milljónum íslenskra króna. Verður togarinn staðgreiddur.

Samkvæmt Jónasi Guðbjörnssyni, fjármálastjóra HB Granda, er endanlegur afhendingardagur ekki kominn á hreint en íranska útgerðin ætlar að nota togarann til botnfiskveiða og verður aflinn frystur um borð.
Ásbjörn hefur lengi þjónað HB Granda og forverum þess félags. Skipið, sem er 620 brúttótonn og rúmar 442 brúttórúmlestir að stærð var smíðað í Flekkefjord í Noregi árið 1978 og verður því 40 ára á næsta ári. Togarinn víkur nú fyrir nýsmíðinni Engey RE. Við móttöku Engeyjar rifjaði Vilhjálmur upp einstaka aflasæld Ásbjarnar. Aflinn er nú samtals orðinn tæplega 230 þúsund tonn og aflaverðmætið gæti verið um 40 milljarðar króna að núvirði.
Vert er að minna á að um sjómannadagshelgina verður sýnd heimildamynd sem Björgvin Helgi Möller Pálsson, kvikmyndagerðarmaður, hefur gert um Ásbjörn. Verður myndin frumsýnd fyrir boðsgesti í Kaldalóni í Hörpu kl. 13 nk. laugardag. Almennar sýningar verða  kl. 14, 15 og 16 á laugardag og á sunnudeginum, eða á sjómannadaginn, kl. 12, 13, 14 og 15. Aðgangur er ókeypis.
 

 

Deila: