Nýr Ægir kominn út
„Ég er sáttur við að hafa valið mér sjómennskuna að ævistarfi, hef prófað að vinna hin ýmsu störf í landi, en það er alltaf eitthvað sem togar mann á sjóinn aftur,“ segir Davíð Stefánsson skipverji á Björgúlfi EA 312, sem nú tímabundið gengur undir nafninu Hjalteyrin. Innan skamms mun nýr Björgúlfur EA halda til veiða en skipið hefur verið í smíðum í skipasmíðastöðinni Cemre í Tyrklandi liðin misseri og er nýkomið til heimahafnar.
Þetta er upphaf Ægisviðtalsins í nýjasta tölublaði Ægis, sem nú er komið út. Auk þessa er meðal annars fjallað um nýja kynslóð frystitogara, um nýjan Björgúlf EA, sem er ísfisktogari og Heimsráðstefnu um sjávarútveg sem haldin verður á Íslandi í haust.
Rætt er við Unni Ingu Kristinsdóttur, nýútskrifaðan sjávarútvegsfræðing og Bjarna Th. Bjarnason, sveitarstjóra Dalvíkurbyggðar. Auk þess er í blaðinu ýmis önnur umfjöllun um sjávarútveg og tengdar greinar.