Langar til Nýja-Sjálands
Maður vikunnar á kvotinn.is þessa vikuna er Grindvíkingurinn Erla Ósk Pétursdóttir. Tengsl hennar við sjávarútveginn eru mikil. Hún er dóttir Péturs H. Pálssonar, framkvæmdastjóra Vísis og afi hennar var Páll H. Pálsson, stofnandi Vísis. Hana langar til Nýja-Sjálands í draumafríið.
Nafn?
Erla Ósk Pétursdóttir
Hvaðan ertu?
Grindavík
Fjölskylduhagir?
Gift Andrew Wissler, fjármálastjóra Vísis, og við eigum þrjá syni Jón Pétur 6 ára, Róbert Ara 4 ára og Tómas Pál 1 árs.
Hvar starfar þú núna?
Sem mannauðs- og þróunarstjóri hjá Vísi hf.
Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?
Fyrstu beinu kynnin við sjávarútveg var sumarvinna í humri þegar ég var á 13. ári í Gullvík í Grindavík, en formlega hóf ég störf í sjávarútvegi á því herrans ári 2007 úti í Kanada.
Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?
Fjölbreytnin, gróskan og krafturinn í fólkinu sem í greininni starfar.
En það erfiðasta?
Að skipuleggja lengra fram í tímann. Stundum gerast hlutirnir svo hratt að dæmið fer að líta öðruvísi út eftir ákveðinn tíma.
Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?
Man ekki eftir neinu skrýtnu beint í vinnunni… en það var ansi skrýtið að búa og vinna erlendis þegar hrunið skall á Íslandi, enda flutti ég fljótlega heim eftir það.
Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?
Ég verð að segja Haris vinur minn sem vann með mér í ráðgjafafyrirtæki í Minneapolis, samkynhneigður töffari með ADD frá Pakistan, ég á ótalmargar skemmtilega sögur af honum.
Hver eru áhugamál þín?
Það hefur lítill tími gefist síðustu ár fyrir áhugamálin en þau snúast mikið um hreyfingu og útiveru; jóga, fótbolti, hlaup og nú síðast bættust hjólreiðar á listann. Nokkrar frænkur og vinkonur tóku sig saman og ákváðum að taka þátt í WOW cyclothon í ár.
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?
Fiskurinn hjá Höllu í Grindavík, ekki spurning.
Hvert færir þú í draumfríið?
Mig hefur lengi langað til að fara til Nýja-Sjálands, og vonast til að komast þangað áður en langt um líður.