Byrjaði 14 ára á síðutogara

Deila:

Ægir Franzson, sem er skipstjóri með Kristni Gestssyni á frystitogaranum Þerney RE, hefur lengi verið til sjós og hann segir að aldrei hafi annað komið til greina en að gera sjómennskuna að ævistarfi. Hann var aðeins 14 ára gamall þegar hann fór í sína fyrstu veiðiferð en það var á síðutogaranum Röðli HF frá Hafnarfirði sem þá var gerður út af Vilhjálmi Árnasyni, afa núverandi forstjóra HB Granda, og Lofti Bjarnasyni.

Ægir á tali við Friðrik Ingason, yfirstýrimann á Þerney RE. Á hinum myndunum er svokölluð stýrimannsvakt á Röðli HF, þar sem Ægir er yngstur á myndinni, og Þerney RE.

Ægir á tali við Friðrik Ingason, yfirstýrimann á Þerney RE. Á hinum myndunum er svokölluð stýrimannsvakt á Röðli HF, þar sem Ægir er yngstur á myndinni, og Þerney RE.

,,Pabbi var í áhöfn Röðuls og hann útvegaði mér plássið í apríl 1967. Ég varð svo 15 ára þá um sumarið. Veiðarnar snerist aðallega um að veiða karfa og ufsa sem siglt var með til Bremerhaven í Þýskalandi og stundum var farið í tvo til þrjá túra á miðin án þess að komið væri heim á milli. Skipstjóri var Jens Jónsson. Svo voru farnir oftast þetta einn til tveir túrar á Grænlandsmið á hverju ári. Þarna um borð kynntist ég Vilhjálmi Vilhjálmssyni, núverandi forstjóra HB Granda, fyrst en hann var síðar samtíða mér í Stýrimannaskólanum,“ segir Ægir í samtali á heimasíðu HB Granda, en hann var í áhöfn Röðuls í þrjú eða fjögur ár. Síðan lá leiðin yfir á Úranus HF, Víking AK, sem þá var enn síðutogari, og Ingólf Arnarsson RE. Í beinu framhaldi fór Ægir svo í Stýrimannaskólann en þaðan lauk hann prófi 1974.

,,Það eru fáir af bekkjarfélögum mínum til sjós í dag og sá eini sem ég man eftir í fljótu bragði er Arngrímur Brynjólfsson sem lengst af sínum ferli hefur verið á skipum Samherja. Hann er nú á einhverjum verksmiðjutogara í eigu Samherja sem gerður er út til veiða í Afríku. Diddi (Kristinn Gestsson) og Vilhjálmur voru svo ári á eftir mér í skólanum en í þeim árgangi voru einnig þeir Samherjafrændur, Þorsteinn Vilhelmsson og Þorsteinn Már Baldvinsson.“
Flakkað á milli togara

Strax eftir útskrift bauðst Ægi pláss á skuttogaranum Ver AK sem var að koma nýr til landsins. Það skip var gert út af Heimaskaga hf. á Akranesi.

,,Ég var ekki stýrimaður fyrstu túrana á Ver en það leið samt ekki á löngu þar til að mér bauðst staða 2.stýrimanns. Ég var þó ekki lengi á Ver því mér stóð til boða að verða stýrimaður á togaranum Hrönn RE. Það skip var síðan selt og varð Viðey eða Engey en ég fór yfir á Vigra RE sem 2. stýrimaður. Skipstjóri var Steingrímur Þorvaldsson. Árið 1980 bauðst mér svo að verða 1. stýrimaður og afleysingaskipstjóri fyrir Einar Sigurðsson á Ingólfi Arnarsyni RE en það skip fékk síðar nafnið Freri RE og heitir nú Blængur NK. Flakkinu var þó langt því frá lokið og eftir rúmt ár á Ingólfi ákvað ég að taka boði um skipstjórastöðu á Rán HF sem Stálskip í Hafnarfirði gerðu út. Ég var svo á Rán og fylgdi skipinu þegar það var selt til Keflavíkur og fékk nafnið Dagstjarnan KE. Leiðin lá svo yfir á Sjóla HF þar sem ég var í nokkur ár en svo fór ég í land,“ segir Ægir.
Fór í land en var þó alltaf á sjó

Þetta var árið 1987 en þá réð Ægir sig til Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna (SH). Frystitogaravæðing flotans var þá að byrja og hlutverk Ægis var að vera í sambandi við útgerðir innan SH og þróa starfið sem sneri að sjófrystingu afurða um borð í skipunum. Ægir segist mest allan tímann hafa verið úti á sjó þótt starfið væri í orði kveðnu í landi og meðal skipa sem hann fór mikið með voru Mánaberg ÓF, Sigurbjörg ÓF, Freri RE og skip Þorbjarnar hf. í Grindavík.

,,Einhvern veginn atvikaðist það svo að árið 1990 var mér boðin staða 1. stýrimanns og afleysingaskipstjóra fyrir Vilhjálm Sigurðsson á Sigurbjörgu ÓF. Ég ákvað að slá til og á Sigurbjörgu var ég til ársins 1993. Þá var mér boðin staða hjá Granda sem fyrsti stýrimaður og afleysingaskipstjóri á Snorra Sturlusyni RE. Diddi var þá skipstjóri og eftir þetta höfum við fylgst að. Við fylgdum skipinu þegar það var selt til Vestmannaeyja árið 2001 en árið 2005 bauðst okkur að koma til HB Granda og fara beint yfir á Þerney RE. Þar erum við enn.“
Sáttur við þróun sjómannadagsins

Nú um sjómannadagshelgina er ekki úr vegi að spyrja Ægi um það hvernig honum finnist sjómannadagurinn hafa þróast.
,,Dagurinn hefur vissulega breyst i áranna rás en ég er síður en svo óánægður með það hvernig dagurinn hefur þróast. Hann er enn hátíðisdagur sjómanna þótt fyrirkomulag sjómannadagsins sé mismunandi eftir byggðarlögum. Ég er mjög sáttur við þá hátíð sem haldin er í Reykjavík um þessa helgi. Þetta er mjög flott framtak og hróður sjómannadagsins hefur bara aukist að mínu viti. Fyrirkomulagið núna er betra en það var ef eitthvað er. Ég hef verið í landi á flestum sjómannadögum frá því að ég fór fyrst til sjós og þetta er alltaf jafn mikill hátíðisdagur í mínum augum,“ segir Ægir Franzson.
ÞerneyRE101

 

 

Deila: