Eimskip kaupir danskt fyrirtæki
Eimskip hefur styrkt stóðu sína í alþjóðlegri flutningsmiðlun með kaupum á 75% hlut í flutningsmiðlunar-fyrirtækinu SHIP-LOG A/S. Fyrirtækið var stofnað árið 2003 og eru höfuðstöðvar þess í Árósum í Danmörku. Núverandi stjórnendateymi mun áfram eiga 25% hlut í fyrirtækinu og stýra rekstri þess.
SHIP-LOG leggur áherslu á að þjónusta innflutnings- og útflutningsaðila og hefur á að skipa öflugu tengslaneti með yfir 120 samstarfsaðilum á heimsvísu. Fyrirtækið er með sterka stöðu í hitastýrðum flutningum á matvælum og lyfjum. Ársvelta fyrirtækisins nemur um 17 milljónum evra, eða um 1,9 milljörðum króna, og EBITDA hlutfall er á bilinu 6-7%. SHIP-LOG hefur á að skipa 32 starfsmönnum.
Kaupin á SHIP-LOG munu styrkja landfræðilegt þjónustunet Eimskips í frystiflutningum og auka fjölbreytni í þjónustu með flutningum á matvælum og lyfjum, með nýjum viðskiptavinahóp og magni. SHIP-LOG mun styrkja stöðu Eimskips í Danmörku ásamt því að þjónustunet SHIP-LOG styður við möguleika samstæðunnar á að leita nýrra tækifæra á nýjum markaðssvæðum og við frekari þróun á flutningaþjónustu Eimskips.
„Við erum ánægð með að SHIP-LOG er nú orðið hluti af samstæðu Eimskips og fyrirtækið mun styrkja frekar flutningaþjónustu okkar með útvíkkun á þjónustuframboði Eimskips hvað varðar nýja vöruflokka. Dýrmæt reynsla stjórnenda og starfsmanna SHIP-LOG mun hjálpa til við að styrkja starfsemi okkar í Danmörku ásamt því að styrkja okkar alþjóðlegu flutningsmiðlunarþjónustu,“ segir Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips
„Við hjá SHIP-LOG erum mjög ánægð með að verða hluti af samstæðu Eimskips þar sem við teljum að við getum lagt félaginu til mikla þekkingu og reynslu. Fram til þessa hafa fyrirtækin lagt áherslu á ólíkar vörutegundir og við sjáum þess fram á að þau muni hafa hag af reynslu hvors annars þegar sótt er inn á nýja markaði og afurðir, Simon Steenholt, framkvæmdastjóri SHIP-LOG og Mads Dalsgaard, eigandi SHIP-LOG
SHIP-LOG mun starfa sem sjálfstæð eining innan samstæðu í gegnum skrifstofur okkar og þjónusta viðskiptavini og samstarfsaðila í óbreyttri mynd. Heiðarleiki og hátt þjónustustig eru í fyrirrúmi hjá SHIP-LOG og við trúum því að viðskiptavinir okkar og samstarfsaðilar muni njóta góðs af því að SHIP-LOG sé orðinn hluti af samstæðu Eimskips. Við sjáum fram á áframhaldandi jákvæðan vöxt fyrirtækisins og mikla samlegð með Eimskip.
Um Eimskip
Eimskip er leiðandi flutningafyrirtæki á Norður-Atlantshafi með tengingar við alþjóðlega markaði og sérhæfingu í flutningsmiðlun um allan heim, með þá framtíðarsýn að vera framúrskarandi í flutningalausnum og þjónustu. Eimskip var stofnað árið 1914 og er með hlutabréf sín skráð á Nasdaq Iceland. Félagið rekur 61 starfsstöð í 20 löndum, er með 21 skip í rekstri og hefur á að skipa um 1.720 starfsmönnum.