Soðningin ódýrust í Hafnarfirði
Litla fiskbúðin Helluhrauni í Hafnafirði var oftast með lægsta verðið þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð á fiskafurðum 8. júní sl. eða í 11 tilvikum af 25. Kjöt og fiskur í Bergstaðarstræti var hins vegar oftast með hæsta verðið í könnuninni eða í 9 tilvikum af 25. Fiskbúðin Hafberg, Hafið í Skipholti, Fiskikóngurinn Sogavegi og Fiskbúðin Vegamót neituðu fulltrúum verðlagseftirlitsins að framkvæma verðkönnun í fiskbúðum sínum.
Mesta úrval fiskafurða var hjá Fiskikónginum Höfðabakka sem bauð upp á allar 25 tegundirnar sem skoðaðar voru. Ef litið er til hefðbundinna fiskbúða þá var minnsta úrvalið í Gallerý fiski Nethyl en þar voru 16 tegundir af 25 fáanlegar, en minna úrval var í öðrum verslunum með fiskborð.
150% verðmunur á stórlúðu
Munur á hæsta og lægsta verði í könnuninni var frá 25% upp í 150%, en í flestum tilvikum reyndist munurinn á bilinu 40%-60%. Mestur verðmunur reyndist á Stórlúðu í sneiðum sem var ódýrust 1.395 kr/kg í Fiskbúðinni Trönuhrauni en dýrust 3.490 kr/kg hjá Hafinu fiskverslun Spöng sem er 2.095 kr. verðmunur eða 150%. Minnstur verðmunur var á frosnum Humar, A gæðum, sem var ódýrastur á 7.900 kr./kg. Í fiskbúð Hólmgerirs en dýrastur á 9.900 kr./kg. hjá Fiskikónginum Höfðabakka og Fiskbúðinni Mos, sem er 2.000 kr. verðmunur eða 25%.
Mikill verðmunur á Ýsuhakki
Ýsuhakk var ódýrast á 990 kr./kg. hjá Litlu Fiskbúðinni en dýrast á 2.290 kr./kg. hjá Kjöt og fiski sem er 131% verðmunur. Nætursöluð ýsuflök voru ódýrust á 1.490 kr./kg. í Litlu Fiskbúðinni en dýrust á 2.170 kr./kg. hjá Fiskbúðinni Sundlaugarvegi sem er verðmunur upp á 680 kr. eða 46%.
Sjá nánari niðurstöður úr könnuninni í meðfylgjandi töflu
Hér er einfalt að bera saman verð á milli fiskbúða í könnuninni
Könnunin var gerð á fiskafurðum í 15 fiskbúðum og öðrum verslunum með fiskborð Fimmtudaginn 8. júní. Kannað var verð á 25 algengum tegundum fiskafurða. Könnunin var gerð í eftirtöldum verslunum: Kjöt og fiski Bergstaðastræti, Melabúðinni, Fiskbúðinni Sundlaugarvegi, Nettó Granda, Fjarðarkaupum, Fiskbúðinni Trönuhrauni, Fiskikónginum Höfðabakka, Litlu fiskbúðinni Helluhrauni, Litlu fiskbúðinni Háaleitisbraut, Hafinu fiskverslun Spöng, Fiskbúð Hólmgeirs, Gallerý fiski Nethyl, Fiskbúðinni Hófgerði, Fiskbúð Sjárvarfangs Ísafirði, Fiskbúðinni Mos.
Fiskbúðin Hafberg, Hafið verslun Skipholti, Fiskikóngurinn Sogavegi og Fiskbúðin Vegamót neituðu þátttöku í könnuninni.
Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.