Hlýtt í hafinu fyrir norðan og austan

Deila:

Í vorleiðangri Hafrannsóknastofnunar 2017 voru hiti og selta í efri sjávarlögum í hlýsjónum sunnan við landið nokkru lægri en verið hefur að jafnaði síðustu tvo áratugi. Hiti og selta efri laga voru yfir meðallagi úti fyrir Norðurlandi. Yfirborðslög fyrir norðaustan og austan land voru vel yfir meðallagi í hita og seltu. Vorkoma gróðurs var víðast vel á veg komin, nema djúpt út af Vesturlandi. Áberandi samfelldur gróðurflekkur náði nánast yfir allt landgrunnið út af Norðuraustur- og Austurlandi og vestur með allri Suðurströndinni. Átumagn var nálægt langtímameðaltali.

Árlegum vorleiðangri Hafrannsóknastofnunar lauk 31. maí síðastliðinn. Farið var á rannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni. Leiðangurinn var liður í langtímavöktun á ástandi sjávar, næringarefnum, gróðri og átu á hafsvæðinu við Ísland.
Athuganir voru gerðar á 171 rannsóknastöð umhverfis landið, yfir mestum hluta landgrunnsins, utan þess og inn á fjörðum. Jafnframt voru gerðar mælingar með síritandi mælitækjum á siglingaleið skipsins. Á öllu rannsóknasvæðinu var könnuð útbreiðsla loðnulirfa og sýni tekin til rannsókna á útbreiðslu og magni örvera í nýju verkefni sem hlaut öndvegisstyrk frá Rannís.  Á völdum stöðum voru tekin sýni til mælinga á geislavirkum efnum og ólífrænum kolefnissamböndum. Í Arnarfirði, Seyðisfirði, Mjóafirði og Norðfirði voru gerðar umhverfismælingar.

Hitastig á 50 metra dýpi.

Hitastig á 50 metra dýpi.

Ástand sjávar
Hiti efri sjávarlaga vestan við landið var um eða undir meðallagi og selta sjávar var lægri en undanfarin ár. Selta hlýsjávarins sunnan við land hefur lækkað nokkuð undanfarið ár.

Djúpt undan Suðausturlandi var hiti efri sjávarlaga nokkru hærri en undanfarin tvö vor og selta sjávar var meiri en undanfarið ár. Suðvestan við landið var hiti um eða yfir meðallagi en selta töluvert lægri en síðustu ár. Út af Vestfjörðum var hiti um eða yfir meðallagi. Innflæði hlýsjávar inn á Norðurmið náði vel austur fyrir Melrakkasléttu. Hiti og selta í efri lögum sjávar úti fyrir Norðurlandi voru yfir meðallagi þó selta hafi lækkað nokkuð frá síðustu árum. Hiti í Austur-Íslandsstraumi yfir landgrunnshlíðum norðaustur af landinu var yfir langtímameðaltali og selta sömuleiðis. Á landgrunninu úti fyrir Norðausturlandi og Austurlandi var sjávarhiti vel yfir langtímameðaltali og selta yfir meðallagi.
Næringarefni og plöntusvif
Vorblómi svifþörunga hafði átt sér stað í Faxaflóa, en gróður var annars rýr vestan lands og styrkur næringarefna líkt og að vetrarlagi, ef grunnslóð Faxaflóa og Vestfjarða er undanskilin. Úti fyrir Norðvesturlandi var svifþörungurinn Phaeocystis pouchetii áberandi, en hann finnst gjarnan í ferskvatnsblönduðum sjó t.d. nærri ísbráð. Nær samfelldur gróðurflekkur hefðbundinna tegunda náði frá Siglunessniði, austur um landið og vestur með Suðurströndinni og loks fyrir Reykjanesið í lok leiðangurs. Miðað við mældan styrk næringarefna má gera ráð fyrir að vorblóminn hafi hvergi nærri verið yfirstaðinn.
Áta

Þegar á heildina er litið var átumagn í yfirborðslögum við landið um og yfir langtímameðaltali. Á Vestur- og Austurmiðum var átumagn nálægt meðallagi, en yfir meðallagi fyrir norðan og sunnan.  Í samanburði við vorið 2016 var magn átu meira á flestum svæðum. Rauðáta var áberandi í flestum háfsýnum sem tekin voru í yfirborðslögum. Útbreiðsla og magn ljósátu var metið með bergmálsaðferð og með sérhannaðri ljósátuvörpu. Ljósátumagnið reyndist yfirleitt mest í köntum og álum umhverfis landið.
Loðnulirfur

Til rannsókna á útbreiðslu og mergð loðnulirfa var háhraða svifháfur togaður hálfa sjómílu, frá yfirborði og niður á 60 metra dýpi á flestum stöðvum. Skemmst frá sagt fundust loðnulirfur allt í kringum landið, en sýnu mest út af Suður- og Suðvesturlandi. Mun minna fannst fyrir norðan og austan og þar voru lirfurnar jafnframt áberandi smáar.

Kristinn Guðmundsson var leiðangursstjóri og Guðmundur Sigurðsson skipstjóri.

 

 

Deila: