Minni afli og lægri verðmæti

Deila:

Fiskafli Færeyinga af heimamiðum fyrir utan uppsjávarfisk á fyrstu fimm mánuðum ársins er svipaður í ár og hann var á sama tíma í fyrra. Alls var landað í Færeyjum 31.055 tonnum, sem er samdráttur um 2%. Verðmæti aflans dróst heldur meira saman eða um 8%.

Alls var landað 22.752 tonnum af botnfiski frá áramótum til maíloka, sem er 577 tonnum minna en á sama tíma í fyrra. Þorskaflinn varð 5.722 tonn, sem er samdráttur um 12%. Af ýsu var landað 2.091 tonni , sem er samdráttur um 10%. Ufsaaflinn varð 11.089 tonn og er það aukning um 4%. Af öðrum botnfiski fengust 3.850 tonn, sem er nánast það sama og í fyrra.

Flatfiskaflinn varð 1.772 tonn og dróst saman um 12%. Grálúðan er uppistaðan í flatfiskveiðunum og nú var landað 1.253 tonnum af henni. Það er þó 242 tonnum minna en árið áður.

Skelfiskafli varð lítill nú, aðeins 909 tonn, sem er 335 tonnum minna en árið áður og loks eru aðrar fiskitegundir, en af þeim var landað  5.608 tonnum, sem er aukning um 10%.

Breytingar á verðmætum eru heldur meiri en samdrátturinn í magninu, sem er aðeins 2%. Verðmæti landaðs afla nú varð 5,4 milljarðar íslenskra króna. Það er samdráttur um 8% og bendir til verðlækkunar á fiski upp úr sjó að einhverju leyti.

Verðmæti botnfiskafla varð nú 4 milljarðar  og dróst saman um 7%. Þorskurinn skilaði 1,8 milljörðum íslenskra króna, sem er aðeins samdráttur um 3% þrátt fyrir 12% samdrátt í magni. Það bendir til verulegrar verðhækkunar á þorski miðað við sama tíma í fyrra. Í ýsunni fellur verðmæti landaðs afla um 10% eins og magnið. Af ufsanum er allt aðra sögu að segja. Verðmætið nú varð 1,2 milljarðar króna, sem er fall um 20%, þrátt fyrir 4% aukningu í afla.

Deila: