Humarhalar kókoshjúpaðir með kóríanderolíu

Deila:

Nú stendur yfir árleg humarhátíð á Hornafirði og því við hæfi að hafa humar í matinn. Algeng aðferð við eldamennsku á humri er að grilla hann en auðvitað er hægt að matreiða hann á óteljandi vegu. Mikilægt er þó alltaf að ofelda ekki og láta hið sérstaka bragð og áferð humarsins halda sér eins og unnt er. Við ákváðum nú að prufa uppskrift sem er ansi frábrugðin því sem við erum vönust og fundum þessa flottu uppskrift í „Veislu með fjölskyldu og vinum“, bók Nóatúns með veisluuppskriftum. Þetta er virkilega fín uppskrift og sjálfsagt að prófa eitthvað nýtt í matseldinni. Flottur rómantískur kvöldverður.

Innihald:

12 humarhalar
¼ bolli maísenamjöl
¾ tsk salt
¼  tsk cayenne pipar
1 bolli kókosmjöl
2 eggjahvítur
1 msk kókosmjölk
olía til steikingar

Kóríanderolía:

1 búnt ferskt kóríander
10 fersk myntulauf
2 dl jómfrúarolía
sjávarsalt og nýmalaður pipar

Aðferðin:

Hreinsið humarinn en skiljið endann á halanum eftir. Blandið maísenamjöli, salti og cayenne pipar saman í skál. Setjið kókosmjölið í aðra skál. Þeytið saman kókosmjólk og eggjahvítur, veltið humrinum upp úr maísenamjölinu, dýfið honum því næst í eggjablönduna, svo í kókosmjölið og þrýstið létt. Hellið olíu í pott þannig að hún sé 5 cm á dýpt. Hitið vel og steikið humarinn í litlum skömmtum og látið olíuna renna af honum á eldhúspappír.
Setjið jurtirnar í matvinnsluvél og maukið, lækkið hraðann á vélinni og hellið olíunni varlega út í og kryddið svo með salti og pipar. Berið humarinn fram með olíunni og klettasalati.

Deila: