Sjávarvöxtur eins árs laxa nálægt meðaltali
Undanfarin ár hafa miklar sveiflur átt sér stað í laxgengd og laxveiði i íslenskum veiðiám þar sem skipst hafa á ár með slakri veiði smálaxa (eins ár sjávardvöl) (2012, 2014, 2016), en á milli ár með öflugum laxagöngum og veiði (2013, 2015).
Árlegar rannsóknir hreistursýna úr Norðurá í Borgarfirði (1988-2017) og í Þjórsá á Suðurlandi (2008-2017) hafa leitt í ljós að þegar vöxtur í sjávardvöl laxins er lítill eru göngur (og veiði) smálaxa jafnframt litlar. Þetta skýrist sennilega af erfiðum sjávarskilyrðum sem virðast auka afföll í sjávardvölinni. Þetta kom m.a. mjög greinilega fram árin 2012, 2014 og 2016, þegar smálaxagengd og veiði var almennt mjög slök, en í árum eins og 2013 og 2015 var eins árs laxinn vænni og göngur og veiði mun betri.
Nú eru fyrstu smálaxar sumarsins farnir að sýna sig á veiðislóð. Hreistursýni hafa verið tekin af smálaxi í Norðurá og í Þjórsá og mælingar á vexti þeirra sýna að sjávarvöxtur smálaxa í veiðinni 2017 er mun betri en árin 2012, 2014 og 2016, en er þó aðeins undir langtíma meðaltali í Norðurá en við meðaltal í Þjórsá. Í Norðurárgagnaröðinni eru tölfræðilega marktæk tengsl milli vaxtar smálaxa og veiði á smálaxi í ánni og þessar niðurstöður gefa þannig vísbendingu um að smálaxagengd og veiði í Norðurá verði betri en á síðastliðnu sumri. Trúlega gildir þetta um fleiri ár á landinu a.m.k. sunnan- og vestanlands.