Trausti tekur við Hafnareyri

Deila:

Trausti Hjaltason, sérfræðingur hjá Lífeyrissjóði Vestmannaeyja, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Hafnareyrar ehf. og tekur þar til starfa í haust. Hann situr í bæjarstjórn Vestmannaeyja fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Trausti Hjaltason

Hafnareyri er dótturfyrirtæki Vinnslustöðvarinnar, stofnað í byrjun árs 2015 og þjónar starfsemi félagsins til sjós og lands en einnig öðrum viðskiptavinum. Skipaafgreiðsla Vestmannaeyja og Eyjaís eru deildir í Hafnareyri, einnig frystigeymsla VSV, saltfiskgeymslan Stakkshús og verkstæði iðnaðarmanna.

Trausti er með meistarapróf í lögfræði og BA-próf í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands. Hann var framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar ÍBV 2010-2012 og hefur eftir það starfað hjá Lífeyrissjóði Vestmannaeyja.

„Nýja starfið verður að ýmsu leyti miklu nær því sem ég gerði hjá ÍBV en lífeyrissjóðnum nú. Þetta er tækifæri sem ég vildi grípa, enda er margt áhugavert í gangi í Hafnareyri og í allri VSV-samstæðunni. Vissulega mikil breyting en afar spennandi verkefni sem ég hlakka til að fást við,“ segir framkvæmdastjórinn nýráðni.

 

Deila: