Mikil veiði smábáta á svæði A

Deila:

Smábátar á svæði af fiskuðu vel i fyrstu viku þriðja tímabils strandveiðanna nú í júlí. Á fyrstu fjórum veiðidögunum tóku þeir 45% af leyfilegum heildarafla sínum. Afli á öðrum svæðum er minni eða frá 18% til 20% af leyfilegu hámarki kvótabundinna tegunda. Athygli vekur að meðalafli á bát á svæði A þessa fjóra daga er 728 kíló í róðri, en leyfilegt hámark er 650 kíló.

225 bátar lönduðu afla í síðustu viku samkvæmt yfirliti Landssambands smábátaeigenda. Heildarafli þeirra var 478 tonn í 657 róðrum. Meðalafli í róðri var 728 kíló og er meðalafli á bát orðinn 2,1 tonn. Leyfilegt hámark kvótabundinna tegunda er 1.061 tonn á þessu tímabili.

Á svæði B lönduðu 124 bátar 150 tonnum í vikunni í 272 róðrum. Meðalafli í róðri var 551 kíló og meðalafli á bát 1,2 tonn. Hámark á afla á þessu svæði er 851 tonn á tímabilinu.

Á svæði C lönduðu 117 bátar 197 tonnum á fyrstu fjórum dögum tímabilsins í 291 róðri. Afli í róðri var að meðaltali 677 kíló og afli á bát er að meðaltali orðinn 1,7 tonn. Leyfilegt aflahámark þar er 988 tonn.

Afæi á svæði D var 72 tonn fyrstu fjóra daga tímabilsins. Þá lönduðu 106 bátar 142 sinnum. Afli að meðaltali í róðri var 505 kíló og tæp 700 kíló á bát að meðaltali.

 

Deila: