Laxeldið umhverfisvænt
Það er álit sveitarfélaganna á Vestfjörðum að laxeldi teljist umhverfisvænt með tilliti til þess hve litlu álagi það veldur á auðlindir og loftlagsmál jarðar í samanburði við annað eldi. Landnotkun og kolefnisfótspor laxeldis er þannig margfalt minna en af eldi kjúklinga, svína eða nautgripa. Þar að auki verður álagi laxeldis dreift þannig að umhverfi sjávarins ráði við það og ummerki verði afturkræf. Þetta kemur fram í drögum að sameiginlegri bókun sveitarfélaganna.
Sveitarfélögin telja einsýnt að laxeldi muni fjölga stoðum atvinnulífs á Vestfjörðum og styrkja þær og dreifa þannig fjöreggjum byggðanna í fleiri körfur. Sveitarfélögin gera kröfu um að starfræksla eldisins verði til fyrirmyndar og byggist á þeirri þekkingu sem aðrar þjóðir hafa aflað, m.a. með því að læra af mistökum liðinna áratuga.
Í bókuninni kemur fram að eldinu þarf nauðsynlega að fylgja uppbygging innviða sem tryggt getur möguleika fiskeldis og annarra atvinnugreina til vaxtar og framþróunar. Einnig þarf að tryggja eðlilega hlutdeild sveitarfélaganna í opinberum tekjum vegna fiskeldis.
Það er krafa sveitarfélaganna að afgreiðsla á umsóknum um laxeldisleyfi verði unnin á þeim hraða sem lög og góð stjórnsýsla mæla fyrir um, en verði ekki dregin mánuðum og árum saman undir yfirskini manneklu eða fjárskorts. „Gríðarleg verðmæti munu skapast í íslensku hagkerfi af laxeldinu. Sveitarfélögin telja að vel útfært laxeldi í strandsjó Vestfjarða þjóni hagsmunum Vestfirðinga, íslensku þjóðarinnar og vistkerfa jarðarinnar,“ segir í bókun sveitarfélaganna.
Mynd og frétt af bb.is