Páll Pálsson ÍS orðinn VSV-togarinn Sindri VE

Deila:

Páll Pálsson ÍS-102 hefur skipt um lit og nafn í dráttarbraut Stálsmiðjunnar í Reykjavík og heitir nú Sindri VE-60. Vinnslustöðin keypti togarann af HG í Hnífsdal.

Sindra VE er ætlað að fylla skarð Gullbergs VE sem hefur verið selt og verður afhent nýjum eigendum um mánaðarmótin júlí/ágúst.

Vinnslustöðin er með nýjan ísfisktogara, Breka VE, í smíðum í Kína en dregist hefur að ljúka frágangi og afhenda skipið og systurskip þess, Pál Pálsson ÍS, sem HG í Hnífsdal á.

Reiknað er nú með að Breki og Páll komi til heimahafna í haust og Sindri VE brúar líka bil sem myndast hjá VSV vegna tafa á heimkomu Breka.

Skipsnafnið Sindri á sér langa og farsæla sögu hjá Vinnslustöðinni og fyrirtækjum henni tengdri. Fiskiðjan gerði út bát með þessu nafni frá sjötta áratugnum til þess áttunda en frá 1977 átti Fiskimjölsverksmiðjan og síðar Vinnslustöðin togara sem Sindri hét og gerði út fram á tíunda áratug síðustu aldar.

 

Deila: