Hreinsa plast úr fjörum Tálknafjarðar

Deila:

Unnið er að því að hreinsa plastagnir og plastdrasl úr fjörum Tálknafjarðar sem rekja má til seiðaeldiseldisstöðvar Arctic Fish í Tálknafirði. Framkvæmdastjóri Arctic Fish segir plastmengunina hafa orðið vegna vestfirskra vinda og að fyrirtækið hafi breytt starfsháttum til að slík atvik endurtaki sig ekki. Frá þessu er sagt á ruv.is í dag.

Myndir af plastögnum í fjörum Tálknafjarðar vöktu athygli á Facebook fyrir skömmu. Flestar agnirnar eru í kringum framkvæmdasvæði seiðaeldisstöðvar Arctic Fish í botni Tálknafjarðar en þar er framkvæmdasvæði stórrar seiðaeldisstöðvar og endurvinnslustöðvar fyrir seiðaeldi. Sigurður Pétursson, framkvæmdastjóri Arctic Fish, segir að agnirnar séu notaðar í svokallaða lífhreinsa stöðvarinnar, settar í tanka, til að byggja upp bakteríuflóru en að ekki hafi verið gert ráð fyrir vestfirskum vindum og agnirnar hrifsaðar af vindum og dreifst víða, sérstaklega í kringum athafnasvæðið.

Sigurður segir að fyrirtækið hafi breytt vinnulagi til að plastagnirnar fari ekki á flug til að fyrirbyggja sambærileg mengun. Nú er sett bráðabirgðaþak yfir körin þegar plastagnirnar eru settar ofan í og þá hefur verið malbikað í kring svo að ef eitthvað fer út fyrir þá er auðvelt að hreinsa upp. „Þetta er eitthvað sem hefur ekki þurft hjá þessum aðilum sem eru að byggja þessa lífhreinsa þegar þeir eru að vinna í öðrum löndum,“ segir Sigurður.

Sigurður segir að atvikið hafi verið tilkynnt til Umhverfisstofnunar og nú sé unnið að hreinsun í samráði við stofnunina og að unglingavinna Tálknafjarðarhrepps hafi til dæmis komið að hreinsuninni. Sigurður segir það þó geta tekið nokkurn tíma að fullhreinsa fjörurnar.

 

Deila: